Körfubolti

Elvar Már komst á lista yfir þá bestu í sinni deild

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenski leikstjórnandinn Elvar Már Friðriksson hefur átt flott tímabil með Barry-háskólanum á Flórída og kemur nú til greina sem einn af bestu leikmönnunum á hans stigi í bandaríska háskólakörfuboltanum.

Barry spilar í 2. deild bandaríska háskólakörfuboltans og datt heldur betur í lukkupottinn þegar Elvar hætti hjá LIU Brooklyn og kom suður til Flórída.

Elvar Már og liðsfélagi hans komust báðir á lista vegna Bevo Francis verðlaunanna en hundrað leikmenn voru tilnefndir. Listinn sem þeir eru á heitir „Bevo Francis Award Watch List“ en sagt er frá þessu á heimasíðu Barry-skólans.

Á síðasta tímabili komst leikmaður Barry, Yunio Barrueta, alla leið í úrslitin en listinn er smá saman skorinn niður. 50 manna listi verður þannig gefinn út 15. febrúar næstkomandi.

Elvar Már er á sínu öðru ári hjá Barry-skólanum en hann er með 14,6 stig og 8,1 stoðsendingu að meðaltali á þessu tímabili. Elvar er í fimmta sæti í allri deildinni yfir flestar stoðsendingar að meðaltali í leik.

Liðsfélagi Elvars sem er einnig tilnefndur er Adrian Gonzalez sem er á síðasta ári í skólanum og hefur skorað 22,1 stig að meðaltali í leik í vetur. Hann er með frábæra skotnýtingu, 65 prósent, og þar hjálpa örugglega frábærar stoðsendingar frá Elvari.

Elvar Már Friðriksson er 22 ára gamall Njarðvíkingur en hann lék með íslenska landsliðinu síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×