Erlent

Senegal sendir hermenn að landamærum Gambíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Stjórnvöld Senegal hafa sent hermenn og orrustuþotur að landamærum Gambíu. Með því vilja þeir beita Yahya Jammeh, forseta Gambíu, þrýstingi svo hann víki úr embætti. Senegal hefur, í umboði Sambands vestur-Afríkuríkja (Ecowas), gefið Jammeh frest til miðnættis (GMT) til að víkja úr embætti og leyfa Adama Barrow, sem vann forsetakosningar í landinu í desember, að taka við völdum.

Önnur nágrannaríki Gambíu eru í viðbragðsstöðu, en þau hafa farið fram á blessun Sameinuðu þjóðanna við hernaðaraðgerðum, neiti Jammeh að víkja.

Jammeh tók við völdum í landinu árið 1994 í tiltölulega friðsömu valdaráni. Andstæðingur hans, Adama Barrow, vann óvæntan sigur í forsetakosningum í desember. Jammeh hefur neitað að víkja en til stóð að Barrow tæki við völdum á morgun.

Í samtali við AFP fréttaveituna segir talsmaður hers Senegal að þeir muni grípa til aðgerða á miðnætti, muni Jammeh ekki víkja.

„Ef engar pólitískar lausnir finnast, munum við ráðast til atlögu,“ segir ofurstinn Abdou Ndiaye.

Þúsundir íbúa Gambíu hafa flúið til Senegal á undanförnum dögum, af ótta við átök. Þá hafa ferðamenn frá Bretlandi og Hollandi einnig verið fluttir á brott, samkvæmt BBC.

Her Gambíu er ekki stór en í honum eru um 2.500 menn. Meðal ríkja sem hafa sent herafla til að taka þátt í mögulegum hernaðaraðgerðum eru Nígería, Ghana og Lagos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×