Erlent

Árásin í Istanbúl: Segir að búið sé að bera kennsl á árásarmanninn

Atli Ísleifsson skrifar
Mevlüt Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands.
Mevlüt Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands. Vísir/AFP
Mevlüt Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, segir að búið sé að bera kennsl á manninn sem varð 39 manns að bana og særði um sjötíu í árás á skemmtistaðinn Reina á nýársnótt. Frá þessu segir í frétt VG.

Cavusoglu greindi frá þessu í morgun en gaf engar frekari upplýsingar um manninn sem enn gengur laus. Lögreglu hefur þó tekist að hafa uppi á fingraförum mannsins.

Fyrr í morgun bárust fréttir um að fimm grunaðir ISIS-liðar hefðu verið handteknir í borginni Izmir. Frá þessu greinir tyrkneski ríkisfjölmiðillinn Anatolia, en alls hafa þá um 43 manns verið handteknir í tengslum við árásina.

ISIS hefur þegar greint frá því að einn af „hermönnum kalifatsins“ hafi staðið fyrir árásinni.

Í vikunni greindu tyrkneskir fjölmiðlar frá því að 28 ára maður frá Kirgistan hafi verið sá sem leitað var að. Umræddur maður var yfirheyrður af lögreglu í Kirgistan í gær og síðar sleppt.

Vegabréfsmynd Kirgisans þótti svipa mjög til mannsins sem lögregla hefur lýst eftir, en lögregla birta ljósmyndir af árásarmanninnum auk myndbands sem hann tók af sjálfum sér nokkru fyrir árásina. Utanríkisráðherrann vill ekki greina frá því á þessari stundu hvort að sá sé maðurinn sem leitað sé að.


Tengdar fréttir

„Við höfum búist við hryðjuverki“

Tyrkir voru að búa sig undir hryðjuverk og á samfélagsmiðlum hafði fólk verið hvatt að halda sig fjarri samkomum þar sem mannfjöldi myndi safnast saman ef ske kynni að hryðjuverkamenn myndu láta til skarar skríða. Þetta segir tyrkneskur blaðamaður sem býr rétt hjá Reina næturklúbbnum þar sem árásin var gerð í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×