Skoðun

Gosið er ekki sökudólgurinn

Almar Guðmundsson skrifar

Kastljósinu hefur verið beint að sykruðum gosdrykkjum sem sökudólg þess að landsmenn eru að þyngjast. Það er afar mikil einföldun að einblína á sykraða gosdrykki sem helstu orsök offituvandans. Það sem Hagstofan kallar „gosdrykki“ og er túlkað sem „sykrað gos“ er villandi þar sem staðreyndin er sú að einungis innan við helmingur af því er raunverulega sykrað gos. Það er því beinlínis rangt að leggja alla gosdrykki að jöfnu, líkt og gert hefur verið í umfjöllun undanfarið.

Gosdrykkir skiptast í sykraða gosdrykki, sykurlausa drykki með sætuefnum og kolsýrða vatnsdrykki. Samkvæmt Markaðsgreiningu/AC Nielsen á árabilinu 2012 til 2016 hefur vægi sykraðra drykkja sem seldir eru á Íslandi minnkað úr 59 prósentum í 48 prósent. Á sama tíma hefur vægi sykurlausra drykkja (ósætra gosdrykkja og drykkja með sætuefnum) vaxið úr 41 prósenti í 52.

Neysluhegðun Íslendinga er að breytast hratt. Það hefur ekkert með sykurskatta að gera heldur er skýringin miklu fremur sú að neytendur eru að taka upplýsta ákvörðun um sína neyslu. Vöruþróun og vöruframboð íslenskra framleiðenda tekur mið af þessu og er í stöðugri þróun til að mæta breyttu neyslumynstri. Þær vörur sem eru í langmestum vexti eru kolsýrðir vatnsdrykkir og hefur sala á slíkum drykkjum vaxið um 83 prósent frá árinu 2010. Á sama tíma hefur sala á sykruðum gosdrykkjum minnkað um 15 prósent og neysla á sykurlausum gosdrykkjum hefur dregist saman um sex prósent.

Þá má nefna að sykurneysla á Íslandi hefur minnkað um nær tíu kíló á mann á nærri fimmtíu ára tímabili. Árið 1967 var neysla sykurs á mann 51,7 kg og árið 2014 var neysla sykurs komin niður í 41,8 kg á mann. Það er öfug fylgni milli heildarneyslu sykurs á mann og aukningar á líkamsþyngd og því erfitt að koma auga á orsakasamhengi þar á milli.

Þessar staðreyndir staðfesta að það er ekki sykrinum einum að kenna að landsmenn þyngjast og ljóst að gosið er ekki sökudólgurinn. Það blasir því við að leita þarf orsakanna víðar.




Skoðun

Sjá meira


×