Í samtali við Vísi segir Óskar Hrafn ekkert sérstakt hafa komið upp á, hann hafi einfaldlega hætt störfum því hann vildi breyta til.
Þeir sem hafa fylgst með Óskari Hrafni á Twitter síðastliðna daga hafa eflaust orðið varir við að hann hefur þar birt lista yfir 57 launahæstu íslensku knattspyrnumennina á erlendri grund árið 2016.
Hann birti fyrsta nafnið föstudaginn 30. desember og er nú kominn á níunda launahæsta leikmanninn.
Óskar Hrafn starfaði lengi sem íþróttafréttamaður og starfaði til að mynda lengi vel sem yfirmaður íþróttadeildar 365.
Hann segir þessa upptalningu sína ekki merki um að hann sé að snúa aftur í íþróttafréttamennskuna.
„Ekkert sem er sérstaklega planað. En ég var lengi íþróttafréttamaður og hef gaman að því að fylgjast með þessu,“ segir Óskar.