Körfubolti

Jakob stigahæstur í fjórða sigri Borås í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson.
Jakob Örn Sigurðarson. mynd/borasbasket.se
Jakob Sigurðarson og félagar í Borås Basket byrja nýja árið vel en liðið vann 35 stiga sigur á Umeå BSKT, 89-54, í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Jakob átti mjög góðan leik en hann skoraði 19 stig á aðeins 24 mínútum auk þess að gefa 3 stoðsendingar, taka 1 frákast og stela 1 bolta.

Jakob hitti úr 6 af 10 skotum sínum í leiknum og úr öllum fimm vítunum. Hann hitti úr 2 af 5 þriggja stiga skotum sínum.

Jakob hefur skorað samtals 40 stig í fyrstu tveimur leikjum Borås á árinu 2017 en hann var með 12,2 stig að meðaltali í fyrstu sextán leikjum tímabilsins.

Borås Basket vann fyrsta leikhlutann 20-14 og var komið 25 stigum yfir í hálfleik, 51-26. Eftir það var nánast formsatriði að klára seinni hálfleikinn og sigurinn var í öruggum höndum Jakobs og félaga.

Jakob hefur verið stigahæstur hjá Borås Basket í fyrstu tveimur leikjum ársins en hann skoraði 21 stig og gaf 4 stoðsendingar í sigri á Jämtland Basket 3. janúar síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×