Körfubolti

Enn einn glansleikurinn hjá Martin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martin hefur spilað stórvel á sínu fyrsta tímabili sem atvinnumaður.
Martin hefur spilað stórvel á sínu fyrsta tímabili sem atvinnumaður. vísir/bára dröfn
Martin Hermannsson átti enn einn stjörnuleikinn þegar Charleville-Mézières bar sigurorð af Lille, 70-76, í frönsku B-deildinni í körfubolta í kvöld.

Martin skoraði 25 stig í leiknum og var stigahæstur í liði Charleville-Mézières. Hann tók einnig sex fráköst og gaf sex stoðsendingar. Íslenski landsliðsmaðurinn hitti úr átta af 14 skotum sínum utan af velli og nýtti öll sex vítin sín.

Charleville-Mézières er í 2. sæti deildarinnar með 10 sigra og þrjú töp.

Það hefur heldur betur birt til hjá Hauki Helga Pálssyni og félögum í Rouen. Þeir unnu fjögurra stiga sigur á Blois í kvöld, 72-68, og eru komnir upp úr fallsæti.

Haukur Helgi var traustur í leiknum í kvöld. Hann spilaði í 35 mínútur; skoraði sjö stig, tók sex fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Martin, Haukur Helgi og aðrir leikmenn deildarinnar fá nú smá frí en keppni hefst að nýju 13. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×