Það er það sem helst má lesa út úr yfirlýsingu frá flokknum sem að mati sumra vekur fleiri spurningar og svör.
Eftir tíu daga samtal Bjartrar framtíðar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Samfylkingar varð ljóst á þriðja tímanum í dag að ekki næðist nægur samhljómur. Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, skilar umboðinu til forseta Íslands í dag.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir í samtali við Vísi ekki meta það svo að viðræðurnar hafi frekað strandað á Vinstri grænum en öðrum flokkum.
„Auðvitað hentar einhverjum að draga upp slíka mynd en mér fannst vera samhljómur þeirra sem sátu við borðið að vera ekki að benda á einhvern einn. Það er ekkert launungarmál að þetta eru ólíkir flokkar. Við erum þarna lengst til vinstri og kannski ekki skrýtið að erfitt sé að finna samhljóm með flokki lengst til hægri,“ segir Katrín.
Vinstri grænir sendu frá sér yfirlýsingu um klukkustund eftir að fundi lauk. Kolbeinn Proppé, nýr þingmaður VG, deildi yfirlýsingunni á Facebook og hafa þónokkrir sett spurningamerki við yfirlýsinguna. Eru forystufólk í Samfylkingunni og fólk tengt flokknum áberandi í ummælakerfinu við færslu Kolbeins.
Kosningastjórinn Stefanía Sigurðardóttir segist til að mynda ekkert skilja.
„Ég skil vel að það er ákveðinn ágreiningur um mikilvæg mál, en það hlýtur að liggja í augum uppi að þetta er lang„skársti“ kosturinn að ríkisstjórn, frá sjónarhóli allra þessara flokka.“