Erlent

Sameinuðu þjóðirnar staðfesta fjöldamorð í Aleppo

Samúel Karl Ólason skrifar
Látinn uppreisnarmaður á götum Aleppo.
Látinn uppreisnarmaður á götum Aleppo. Vísir/AFP
Sameinuðu þjóðirnar hafa staðfest að fjöldamorð hafi átt sér stað í Aleppo í Sýrlandi. Þeir segja minnst 82 almenna borgara hafa verið tekna af lífi í gær og í nótt. Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna segir fólkið hafa verið myrt í minnst fjórum hverfum borgarinnar.

Á meðal hinna myrtu eru ellefu konur og þrettán börn.

Sjálfboðaliðar sem veita stjórnarhernum stuðning eru sagðir meðal annars hafa farið inn á heimili fólks og myrt það. Þá hafa gífurlegar loftárásir og stórskotaliðsárásir verið gerðar á borgina. Í gærkvöldi sögðu „Hvítu hjálmarnir“ svokölluðu að minnst 90 manns væru föst í rústum húsa í borginni. Ekki væri hægt að komast til þeirra, en björgunarmenn heyrðu í fólki í rústunum.

Talsmaður Mannréttindastofnunarinnar segir fregnir einnig hafa borist af því að fjöldi líka liggi á götum Aleppo. Íbúar þori ekki að sækja þau vegna loftárása og af ótta við að verða skotin til bana.

Borginni hefur í raun verið skipt upp í tvo hluta í fjögur ár. Stjórnarherinn hefur stjórnað vesturhluta hennar og uppreisnarmenn austurhlutanum. Stjórnarhernum tókst þó að brjótast í gegnum víglínurnar með hjálp sjálfboðaliða frá Íran og öðrum löndum og loftárásum Rússa.

Uppreisnin í Aleppo virðist nú vera komin að endalokum en talið er að enn haldi um hundrað þúsund manns til á því litla svæði sem uppreisnarmenn stjórna enn. Bæði Sameinuðu þjóðirnar og Rauði krossinn hafa biðlað til stjórnvalda Sýrlands og Rússa til að binda enda á loftárásirnar í borginni og gefa borgurum möguleika á því að yfirgefa svæðið.


Tengdar fréttir

Uppreisnarmenn nánast að falli komnir í borginni Aleppo

Stjórnarherinn í Sýrlandi hefur náð gamla bæjarhlutanum í Aleppo úr höndum uppreisnarmanna. Megnið af borginni allri er nú á valdi stjórnarhersins. Tvær og hálf milljón manna bjó í borginni þegar átök hófust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×