Skoðun

Peningalegur ómöguleiki

Ásdís Kristjánsdóttir skrifar
Við lifum óvenjulega tíma, það er góðæri, lág verðbólga og verðbólguvæntingar, kaupmáttur hefur sjaldan verið meiri, sparnaður eykst og útlit er fyrir áframhaldandi hagvöxt. Á sama tíma og flest ríki Evrópu glíma enn við veikan efnahagsbata erum við komin inn á sjötta ár þessa hagvaxtarskeiðs. Við skerum okkur úr.

Seðlabanki Íslands starfar eftir verðbólgumarkmiði þar sem meginmarkmiðið er að halda ársverðbólgu sem næst 2,5%. Frá febrúar 2014 hefur verðbólga að meðaltali mælst 1,7% og því haldist talsvert undir skilgreindu markmiði, verðbólgan hefur með öðrum orðum verið of lág. Seðlabankinn hefur á þessum tíma kerfisbundið spáð hærri verðbólgu en raungerst hefur og því viðhaldið hærra raunvaxtastigi en ætlunin var. Nú er svo komið að raunvextir eru nánast hvergi hærri en á Íslandi og hafa verið hátt í 4% að meðaltali frá ársbyrjun 2014. Við skerum okkur úr.

Á vaxtaákvörðunarfundi þann 16. nóvember sl. birti Seðlabankinn spá um verðbólgu, spá sem lögð er til grundvallar vaxtaákvörðunum, en þar er gert ráð fyrir að verðbólga verði áfram undir markmiði fram á seinni árshelming 2018. Þrátt fyrir horfur á lágri verðbólgu og verðbólguvæntingar í markmiði töldu nefndarmenn ekki tilefni til vaxtalækkunar vegna hættu á vaxandi spennu í hagkerfinu. Hvað gerist þegar góðærinu lýkur og efnahagsslaki myndast á ný, krónan veikist og verðbólguhorfur versna, munu vextir þá lækka? Leyfum okkur að efast um það.

Það virðist sem hér ríki peningalegur ómöguleiki. Vextir hér á landi þurfa að haldast háir sama hvað á gengur.

Hávaxtastefna Seðlabankans dregur úr fjárfestingu í landinu, dregur úr hvata til nýsköpunar og ýtir undir efnahagslegt ójafnvægi þar sem gengisstyrking krónunnar færir neyslu úr landi. Það átti við fyrir hrun og á enn við í dag. Þessi hliðaráhrif er lítið rætt um á vaxtákvörðunarfundum. Það er ekki nauðsynlegt að vera eitt mesta hávaxtaríki heims. Ef ekki er hægt að lækka vexti núna hvenær þá?

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×