Handbolti

Stefán: Sé þroskamerki á liðinu í hverri viku

Ingvi Þór Sæmundsson á Selfossi skrifar
Stefán og strákarnir hans eru í 2. sæti Olís-deildarinnar.
Stefán og strákarnir hans eru í 2. sæti Olís-deildarinnar. vísir/anton
Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, var hinn kátasti eftir sterkan sigur hans manna, 32-25, á Aftureldingu í kvöld.

„Við vorum einbeittir í að spila okkar leik og ná okkar hlutum í gang. Það tók korter að byrja leikinn. Mér fannst þeir vera með frumkvæðið og stjórn á leiknum fyrstu 15 mínúturnar. En þegar við sýndum meira frumkvæði í vörninni og stjórnuðum hraðanum fannst mér við vera miklu sterkari,“ sagði Stefán.

Selfoss var þremur mörkum yfir í hálfleik, 16-13, og lét það forskot aldrei af hendi í seinni hálfleik. Stefán kvaðst ánægður með stjórnina sem hans menn höfðu á leiknum.

„Við vorum ótrúlega yfirvegaðir. Það var mikil stjórn á vellinum, alveg sama þótt þeir breyttu um vörn og sama hvað þeir reyndu. Við létum þá aldrei slá okkur út af laginu og héldum „kúlinu“. Við vorum árásargjarnir allan leikinn og alltaf með nýjar og nýjar lausnir,“ sagði Stefán sem er ánægður með þróunina á leik Selfyssinga.

„Maður sér þroskamerki á liðinu í hverri viku og við erum alltaf að bæta okkur. Það sem við erum að vinna í verður betra með hverri vikunni; vörnin, sóknin og líka það að hafa stjórn á leiknum og kunna að vera yfir. Við erum á réttri leið.“

Selfyssingar eru á góðri siglingu, sitja í 2. sæti Olís-deildarinnar og hlutirnir líta afskaplega vel út fyrir þá. En hversu langt getur þetta lið farið?

„Það er erfitt að segja,“ sagði Stefán. „Við ætlum ekkert að blekkja sjálfa okkur með því að halda að við séum komnir í baráttu um einhverja titla. Við vitum að ef við töpum 1-2 leikjum í röð erum við komnir niður í 7.-8. sæti deildarinnar. Við höldum bara áfram og tökum einn leik fyrir í einu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×