Innlent

Nigel Farage fyrsti breski stjórnmálamaðurinn sem hittir Trump eftir kosningarnar

Birgir Olgeirsson skrifar
Nigel Farage, leiðtogi breska sjálfstæðisflokksins.
Nigel Farage, leiðtogi breska sjálfstæðisflokksins. Vísir/EPA
Nigel Farage, leiðtogi breska sjálfstæðisflokksins (UKIP), varð í kvöld fyrsti breski stjórnmálamaðurinn til að hitta Donald Trump eftir að hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna.

Greint er frá þessu á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC en þar er haft eftir talsmanni UKIP að Farage hafi rætt „frelsi og sigur“ við Trump á fundi þeirra í Trump-turninum í New York.

Farage hafði fyrir fundinn haldið því fram að Theresa May, forsætisráðherra Breta, yrði að hafa gott samband við nýkjörinn forseta Bandaríkjanna.

„Ég held að hann verði að hitta hana. Hennar teymi hefur verið afar dónalegt í garð Trump, svo það þarf að bæta það samband,“ sagði Farage við Fox News.

„Trump er Bretavinur, hann veit og þekkir hvað þessar frábæru þjóðir hafa gert saman. Og til allrar hamingju eru við að nálgast endalok Bandaríkjaforseta sem hafði óbeit á Bretlandi.“

BBC hefur eftir talsmanni breska forsætisráðuneytisins að Farage hefði ekkert hlutverk í samskiptum ráðuneytisins við verðandi forseta Bandaríkjanna og stjórn hans.

Theresa May áætlar að hitta Trump á fyrstu þremur mánuðum næsta árs.


Tengdar fréttir

Lýðskrumsflokkarnir fagna Trump

Evrópskir stjórnmálaflokkar sem hafa varað við innflytjendum og barist gegn alþjóðavæðingu líta á sigur Donalds Trump sem hvatningu til dáða og hlakka til framhaldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×