Þessi teymi, samtals tólf fulltrúar flokkanna, hafa unnið undanfarna sólarhringa að texta nýs stjórnarsáttamála á ótilgreindum stað. Aðrir þingmenn flokkanna en þeir sem taka þátt í þessari vinnu hafa ekki fengið upplýsingar um staðsetningu.
Þingflokkar Viðreisnar og Bjartrar framtíðar héldu í dag sameiginlegan þingflokksfund þar sem línur voru lagðar. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu kom mjög sterkt fram á þessum fundi hvað þingmenn flokkanna væru samstíga í stórum og mikilvægum málum.
Sjálfstæðismenn hafa áhyggjur af þingstyrk
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundaði síðast á föstudag. Þá lagði þingflokkurinn blessun sína yfir formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Bjarta framtíð og Viðreisn sem hófust svo í fjármálaráðuneytinu á laugardag.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem fréttastofa hefur rætt við hafa áhyggjur af litlum þingstyrk ríkisstjórnar Bjartrar framtíðar, Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar enda hefur hún aðeins eins þingmanns meirihluta. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefur þó fullt og óskorað umboð þingflokksins til að leiða þessar viðræður farsællega til lykta.
„Þetta getur verið vandamál en þetta getur líka verið styrkur. Ef menn eru samhentir þá er hægt að ná miklum árangri. Menn þurfa að vanda sig. Þetta er meira álag og menn þurfa að vera mjög duglegir ef menn ætla að halda svona tæpu meirihlutasamstarfi,“ segir Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem fréttastofa hefur rætt við segja að erfiðasta málið í þessum viðræðum lúti að því hvernig eigi að ná málamiðlun um framhald aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið eða hvernig eigi að orða spurningu um framhald viðræðna sérstakri í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Brynjar Níelsson er einn þeirra þingmanna sem furðar sig á því að þetta sé yfirleitt eitthvað atriði í viðræðum flokkanna því það sé hreinlega ekki í boði að fara í viðræður við sambandið í dag.
Sérðu fyrir þér hvernig væri hægt að leysa þetta í stjórnarsáttmála þessara þriggja í ljósi ólíkrar stefnu flokkanna í þessu máli? „Ég held að það sé mjög flókið. Eini möguleikinn er að menn sammælist um að þingið afgreiði þetta með einum eða öðrum hætti síðar þegar sú staða er uppi að það verður mögulegt að fara í einhverjar aðildarviðræður,“ segir Brynjar.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins segja að í þingflokknum séu menn opnir fyrir kerfisbreytingum á sjávarútvegskerfinu svo lengi sem breytingarnar stuðli að sátt í samfélaginu og veiki ekki atvinnugreinina.
Erfið málamiðlun í landbúnaði
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins segjast búast við að þegar landbúnaðarkerfið sé annars vegar verði einhvers konar málamiðlun ofan á sem byggi að hluta á þeirri stefnu sem mörkuð var með lagabreytingum sem fylgdu búvörusamningum sem samþykktir voru á Alþingi fyrr í haust. Þar var kveðið á um skipun starfshóps um endurskoðun búvörusamninganna. Tryggja átti aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni sem á að ljúka eigi síðar en 2019. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði starfshópinn í síðasta mánuði.
Ekki hafa fengist svör við því hvernig málamiðlun um stefnu sem byggir á þessum grunni samrýmist áherslum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Eitt af því sem hefur verið nefnt í herbúðum Viðreisnar er að mögulegt sé að gera „táknrænar breytingar“ í landbúnaði sem séu óháðar síðustu búvörusamningum. Ekki fengust þó nánari upplýsingar um eðli þessara breytinga þar sem viðmælendur voru bundnir trúnaði. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er líka inni í myndinni að fá bændur að samningaborðinu upp á nýtt og ráðast í kerfisbreytingar í sátt við þá sem gætu þá komið í stað síðustu búvörusamninga.