Þingmenn Viðreisnar eru aftur á móti bjartsýnir á að þau málefni sem flokkurinn lagði áherslu á í aðdraganda kosninga nái í gegn í stjórn Katrínar.
Katrín Jakobsdóttir hélt á fund forseta Íslands í gær og fékk umboð til myndunar nýrrar ríkisstjórnar. Katrín sagði að fundinum loknum að naumur tími væri til myndunar ríkisstjórnar og standa áætlanir til að hún hefji fundi með formönnum stjórnmálaflokkanna klukkan hálf tíu í dag. Katrín hefur verið skýr með þann vilja sinn að mynda fimm flokka stjórn frá miðju og til vinstri.

Heimildir fréttastofu herma að innan þingflokks Vinstri grænna séu raddir sem telji Framsóknarflokkinn vænlegri kost til samstarfs en Viðreisn.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, er ekki sammála því að mikið beri á milli.
„Það liggur ljóst fyrir að á milli okkar og VG er töluverður samhljómur þegar kemur að því að breyta málum í sjávarútvegi, þó það sé kannski áherslumunur um nákvæmlega hvernig. Vinstri græn lýstu því fyrir kosningar að flokkurinn væri reiðubúinn að láta kjósa um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið svo þar ætti að vera samhljómur líka. Jafnréttismálin og umhverfismálin ættu held ég að vera borðleggjandi.“

Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, segir flokkinn reiðubúinn að skoða einhverjar breytingar varðandi sjávarútveginn.
„En ef við ætlum að fara í kerfisbreytingar í sjávarútveginum þá verðum við að vita hvaða áhrif það hefur. Er búið að reikna uppboðsleiðina út? Ætla menn að vinda algjörlega ofan af kvótakerfinu? Mér finnst allt í lagi að fara í ákveðnar breytingar en ég þarf að sjá til lands og vita að við séum ekki að taka úr sambandi fiskveiðistjórnunarkerfið,“ segir Lilja.
Varðandi Evrópusambandið segir Lilja að fyrst þurfi að taka á málum innanlands áður en þráðurinn verði tekinn upp í aðildarviðræðum. Fari aðildarviðræður í þjóðaratkvæði vill Lilja að spurningin snúist um hvort þjóðin vilji ganga inn í ESB eða ekki. Hún tekur ekki vel í hugmyndir Katrínar Jakobsdóttur um tvær spurningar í einni atkvæðagreiðslu, annars vegar um framhald aðildarviðræðna og hins vegar afstöðu til inngöngu.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu