Innlent

Óásættanleg niðurstaða kjararáðs

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
"Hin leiðin er að tryggja að aðrir hópar samfélagsins fái ekki lakari leiðréttingar en kjararáð býður upp á“
"Hin leiðin er að tryggja að aðrir hópar samfélagsins fái ekki lakari leiðréttingar en kjararáð býður upp á“ VÍSIR/VILHELM
Félag grunnskólakennara segir að ákvörðun kjararáðs um hækkun launa forseta Íslands, alþingismanna og ráðherra sé óásættanleg. Ekki sé nóg fyrir ríkisstjórnina að draga hækkunina til baka, hún verði að tryggja að slíkt gerist ekki aftur.

Í tilkynningu frá félaginu er bent á að grunnskólakennarar hafa tvívegis hafnað kjarasamningi m.a. vegna þeirra launahækkana sem í boði hafa verið. Ítrekað hafi komið fram í samningaviðræðum við ríki og sveitarfélag að launaþróun kennara og stjórnenda innan KÍ skuli vera 30,5 prósent í heildina á árabilinu 2013-2019. Ekki sé svigrúm til að fara út fyrir þann ramma.

„Það er algerlega óásættanlegt að kjararáð telji eðlilegt að hækka laun einstakra hópa langt, langt umfram það sem þorra launamanna stendur til boða. Það verður ekki nóg fyrir komandi ríkisstjórn að gefa strax út yfirlýsingu um að þetta verði dregið til baka – hún verður að tryggja að slíkt gerist ekki aftur,“ segir í tilkynningunni.

Telur félagið að hætt sé við því að sá stöðugleiki sem stjórnmálamenn hafa lagt áherslu á að ríki í landinu muni hverfa „eins og dögg fyrir sólu.“

„Hin leiðin er að tryggja að aðrir hópar samfélagsins fái ekki lakari leiðréttingar en kjararáð býður upp á. Félag grunnskólakennara er reiðubúið í viðræður um slíkar leiðréttingar á launum hvenær sem er,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Skýlaus krafa að hafna hækkunum kjararáðs

Verkalýðsfélög og hagsmunasamtök gagnrýna harðlega ákvörðun kjararáðs um hækkun launa til æðstu embættismanna. Krafist er að ákvörðunin verði tekin til baka annars sé stöðugleikanum ógnað og upplausn ríki í þjóðfélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×