Erlent

May vill hnekkja Brexit-dómnum í Hæstarétti

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að breska ríkisstjórnin muni reyna að fá nýjum dómi um lögmæti útgöngu Breta úr Evrópusambandinu hnekkt fyrir Hæstarétti Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að breska ríkisstjórnin muni reyna að fá nýjum dómi um lögmæti útgöngu Breta úr Evrópusambandinu hnekkt fyrir Hæstarétti Bretlands. Vísir/AFP
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að breska ríkisstjórnin muni reyna að fá nýjum dómi um lögmæti útgöngu Breta úr Evrópusambandinu hnekkt fyrir Hæstarétti Bretlands. Hún segir að bresk stjórnvöld muni virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um útgönguna, sem oft er kölluð Brexit, frá því í sumar.

May skrifar grein í blaðið The Telegraph um helgina þar sem hún bregst við dómi yfirréttar í Englandi um lögmæti Brexit. Þetta eru fyrstu viðbrögð forsætisráðherrans við dómnum sem felur í sér að bresk stjórnvöld geti ekki virkjað 50. gr. Lissabon-sáttmálans og hafið formlegt útgönguferli úr Evrópusambandinu þrátt fyrir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í sumar, án þess að breska þjóðþingið samþykki það áður.

May segir í grein sinni að breska þingið hafi samþykkt að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna og þar með skuldbundið sig til að virða niðurstöðu hennar. Það hafi verið niðurstaða meirihluta Breta að segja sig úr Evrópusambandinu en 52 prósent þeirra sem greiddu atkvæði kusu með Brexit og bresk stjórnvöld muni virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Breska ríkisstjórnin hefur þegar áfrýjað dómnum til Hæstaréttar Bretlands. May segir í grein sinni í Telegraph að prinsipp lýðræðisins hangi á línunni og að Bretar verði að hverfa frá átökum fortíðar, standa saman og notfæra sér tækifærið sem útgangan úr Evrópusambandinu feli í sér. Hún vísar því jafnframt á bug að Brexit sé afturhvarf til fortíðar því opin og metnaðarfull framtíð bíði Breta.

Búist er við að Hæstiréttur Bretlands dæmi í málinu í janúar næstkomandi. Bresk stjórnvöld höfðu áður ráðgert að hefja úrsagnarferlið formlega í lok mars 2017.


Tengdar fréttir

Breskir þingmenn í bobba

Samkvæmt dómsúrskurði frá því á fimmtudag fer breska þingið eitt með ákvörðunarvald um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×