Erlent

Demókratar draga úr væntingum í þingkosningum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Demókratar eru að draga úr væntingum sínum í þingkosningum sem fara fram samhliða forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Undanfarnar vikur höfðu þeir farið að vonast eftir góðri frammistöðu í báðum deildum þingsins og jafnvel var talið að Demókrataflokkurinn gæti náð meirihluta í báðum.

Tilkynning James Comey, yfirmanns Alríkislögreglu Bandaríkjanna, um frekari rannsóknir á tölvupóstum Hillary Clinton í síðasta mánuði er sögð hafa komið verulega niður á demókrötum.

Samhliða forsetakosningunum er kosið um 34 af 100 sætum á öldungadeild þingsins og öll 435 sætin á fulltrúadeild þingsins. Repúblikanar hafa verið með meirihluta í báðum deildum.

Greinendur og aðstoðarmenn þingmanna sem Reuters ræddi við segja líklegt að Repúblikanar muni halda meirihluta sínum í báðum deildum.

FiveThirtyEight segir þó að samkvæmt reiknilíkani sínu sé nánast ómögulegt að segja til um hvernig þingkosningarnar fara. Líkurnar hafi þó verið að færast repúblikönum í hag á síðustu dögum.

Spá FiveThirtyEight varðandi öldungadeildina.Mynd/Fivethirtyeight.com



Fleiri fréttir

Sjá meira


×