Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins og starfandi forsætisráðherra kom á fund til forseta Guðna Th. Jóhannessonar rétt fyrir klukkan 13 í dag en hann er sá fjórði í röðinni til að mæta á Bessastaði til að ræða komandi stjórnarmyndunarviðræður.
Hann vildi ekkert ræða við fjölmiðla fyrir fundinn með forsetanum og gaf lítið upp eftir fundinn. Sigurður sagði Framsóknarflokkinn vera ábyrgan stjórnmálaflokk sem þekkti það vel að vera í ríkisstjórn en hann vildi ekkert gefa upp um það hvað þeir Guðni ræddu; sagði það á milli þeirra tveggja.
„Eins og ég hef lýst þá erum við 100 ára flokkur og erum ábyrgur stjórnmálaflokkur. Við erum tilbúin til þess að vinna með öllum og erum tilbúin til þess að sitja í ríkisstjórn,“ sagði Sigurður.
Hann var spurður út í það sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi formaður flokksins sagði í Fréttablaðinu í dag um það að ef að hann hefði leitt flokkinn í kosningunum á laugardaginn þá hefði Framsókn fengið 18 til 19 prósent.
„Það er alltaf hægt að velta fyrir sér hvað og ef en ég ætla ekki að vera í því,“ sagði Sigurður Ingi.
Klukkan 14 mætir Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar á fund forseta, því næst Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar og að lokum Oddnýju Harðardóttur formann Samfylkingarinnar. Að því búnu er búist við að forseti veiti einhverjum formanni flokkanna stjórnarmyndunarumboð en hvort það verður í kvöld eða á morgun liggur ekki fyrir.
Svíþjóð
Ísland