Það var Bubbi Morthens sem hlaut Gullnöglina, gítarverðlaun Björns Thoroddsen, í ár fyrir áhrif sín á íslenskan gítarleik. Verðlaunin voru afhent í tengslum við gítarhátíð Björns sem verður í Háskólabíói í kvöld, laugardagskvöldið 22. október. Meðal þeirra sem þar koma fram er bandaríski blúsgítarleikarinn Robben Ford, sem er kominn hingað til lands með eigin hljómsveit.
Björn er einmitt að æfa þegar í hann er hringt. Hann segir Ford hafa fyrst komið til Íslands í fyrra í sömu erindum.
„Þegar ég var að keyra hann út á flugvöll vakti hann máls á því að við mundum gera plötu saman. Robben Ford er stórt nafn í Bandaríkjunum, hann hefur unnið með Bob Dylan og mörgum stórstjörnum.
Ég tók hann ekki alvarlega en svo hringdi hann skömmu seinna og spurði hvaða lög við ættum að hafa á plötunni. Það varð úr að ég fór út og við spiluðum saman og tókum upp. Hann vildi hafa söngvara og ég stakk upp á tvítugri stúlku, Önnu Þuríði Sigurðardóttur, sem ég hafði heyrt í á Bolungarvík. Hann féll líka fyrir röddinni hennar, svo það small og hún verður með okkur á tónleikunum í kvöld.“
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. október 2016.
