Innlent

Hlýindin ekki hægt að tengja beint við hlýnun jarðar

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Hlýindin á landinu undanfarnar vikur eru óvenjuleg en ekki hægt að tengja þau beint við hlýnun jarðar að mati veðurfræðings. Áfram verður hlýtt í veðri á morgun en svo fer að kólna með tilheyrandi éljum samkvæmt Veðurstofu Íslands.

Meðalhitastig í október hefur verið í kringum níu gráður síðustu þrjár vikur og þarf að leita 60 ár aftur í tímann til þess að finna viðlíka hitastig í jafnlangan tíma.

Hlýindi undanfarna daga hafa verið mönnum ofarlega í huga en síðastliðinn sólarhring féll snjór í efri hluta Bláfjalla og Esjunnar. Á Hellisheiði varaði vegagerðin við hálku og krapa og sömu sögu var að segja af Kjósaskarði og Fróðárheiði. Þá var hálka á Nesjavallavegi, í Bröttubrekku, í Mikladal og á Hrafneyrarheiði. Trausti Jónsson hefur fylgst með veðurfarinu á Íslandi í áratugi og segir margt óvenjulegt við þann háa hita sem hefur verið í október en rík sunnan átt hefur verið á landinum sem stafar af óvenju miklu háþrýsti svæði yfir norðurlöndunum.

„Þetta er farið að verða óvenjulegt. Þetta er búið að standa núna í þrjár vikur og við höfum ekki fengið svona hlýjar þrjár vikur á nákvæmlega þessum tíma árs síðan 1959,“ segir Trausti.

Trausti segir að svona hlýindi sé ekki hægt að tengja beint við hlýnun jarðar og bætir því við að októbermánuður núna á seinni áratugum hefur verið frekar kaldur ef frá er talið árið í ár. Það gæti þó farið að breytast.

„Ég held að það sé ekki beinlínis gert ráð fyrir kulda. Okkur finnst svalt vegna þess hve hefur verið hlýtt.

Trausti segir að í meðal lagi á lögnum tíma hefur alhvít jörð komið fyrst á höfuðborgarsvæðinu fyrstu dagana í nóvember. Hann hvetur fólk til þess að fara að draga fram úlpurnar, líklegt sé að fyrsta snjókoman sé ekki langt undan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×