Skoðun

Sjúkraþjálfun bætir líf aldraðra

Unnur Pétursdóttir skrifar
Það er gríðarlega mikilvægt að eldri borgarar hafi greiðan aðgang að sjúkraþjálfun og almennri endurhæfingu. Í upphafi árs féllu á fundi Samtaka Atvinnulífsins þau orð að „á sama tíma er öldruðum að fjölga ört sem kallar á endurskoðun heilbrigðiskerfisins“. Besta leiðin til að bregðast við fjölgun aldraðra er að stuðla að því að þeir haldi heilbrigði sínu, hreysti og atgervi sem allra lengst.

Rétt er að benda á að meðferð sjúkraþjálfara, þjálfun og æfingar er engu minni meðferð við mörgum þeim kvillum sem hrjá aldraða en lyf. Sýnt hefur verið fram á að þjálfun og hreyfing hefur umtalsverð jákvæð áhrif á líkamlega færni og andlega líðan eldra fólks og því hefur verið haldið fram að væri til lyf sem hefði jafn breiðvirk meðferðaráhrif og þjálfun væri það kallað kraftaverkalyf.

Rannsóknir hafa sýnt að aldraðir sem njóta þjálfunar eru mun líklegri til að geta verið heima lengur, ekki síst ef þeir í framhaldi fá þjónustu sjúkraþjálfara heim. Sjúkraþjálfun á hjúkrunarheimilum er ekki síður mikilvæg. Sýnt hefur verið fram á að byltuvarnir spara háar fjárhæðir og þjálfun sem gerir öldruðum einstaklingi kleift að vera sjálfbjarga á salerni í stað þess að þurfa aðstoð 1 – 2 aðstoðarmanna getur ekki annað en verið sparnaður, að ógleymdum þeim auknu lífsgæðum sem slíkt felur í sér. Þessi sparnaður kemur hins vegar ekki fram á fyrsta degi og er því freistandi fyrir aðþrengda framkvæmdastjóra hjúkrunarheimila að spara eyrinn með því að skera niður þjónustu sjúkraþjálfunar. Sú staðreynd að með því sé krónunni hent er gert að seinni tíma vandamáli.

Sé ráðamönnum alvara í því að bregðast á skynsamlegan hátt við fjölgun aldraðra þá er stórfelld efling sjúkraþjálfunar og almennrar endurhæfingar lykillinn að lausn þess stóra verkefnis.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×