Íslenski boltinn

Margrét Lára fer í aðgerð á hinu lærinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir leiðir íslenska liðið fyrir leik á móti Dönum á æfingamótinu í Kína.
Margrét Lára Viðarsdóttir leiðir íslenska liðið fyrir leik á móti Dönum á æfingamótinu í Kína. Mynd/KSÍ/Hilmar Þór Guðmundsson Norðfjörð
Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði Vals og íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, fer í aðgerð á næstu dögum en hún er nýkomin heim frá Kína þar sem hún tók þátt í æfingamóti með íslenska landsliðinu.

Margrét Lára hefur ekki getað beitt sér að fullu vegna lærameiðsla og spilaði sem dæmi aðeins í 70 mínútur af 270 í leikjunum þremur út í Kína.

Margrét Lára hefur nú ákveðið að leggjast undir hnífinn og fara í aðgerð á vinstra læri en hún fór í sambærilega en talsvert stærri aðgerð á hægra lærinu haustið 2012. Morgunblaðið segir frá þessu.

Margrét Lára hefur verið að fresta aðgerðinni á vinstra lærinu síðustu ár. „Ég náði alltaf að hvíla mig inn á milli, eftir fyrri aðgerða og svo þegar ég fór í barneignir,“ sagði Margrét Lára við Morgunblaðið.

Margrét Lára þurfti nokkra mánuði til að jafna sig eftir fyrri aðgerðina en þar sem að þessi aðgerð er mun minni vonast landsliðsfyrirliðinn til þess að geta farið að spila fótbolta strax í janúar eða um 4 til 6 vikum eftir aðgerðina.

Margrét Lára hefur sett stefnuna á Evrópumótið í Hollandi næsta sumar en undirbúningur íslenska liðsins hefst strax í ársbyrjun.

Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði 14 mörk í 17 leikjum með Val í Pepsi-deildinni síðasta sumar sem var hennar fyrsta tímabil á Íslandi frá 2008. Hún gat spilað alla leiki tímabilsins nema leikinn á móti Breiðabliki í lokaumferðinni.

Margrét Lára spilaði 10 af 13 landsleikjum ársins og skoraði í þeim 2 mörk. Hún var fyrirliði í 7 landsleikjum á árinu eða öllum leikjunum sem hún var í byrjunarliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×