Handbolti

Einar Andri: Ekki sjálfgefið að við verðum betri en við erum núna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Einar Andri og strákarnir hans eru með sex stiga forskot á toppi Olís-deildarinnar eftir níu umferðir.
Einar Andri og strákarnir hans eru með sex stiga forskot á toppi Olís-deildarinnar eftir níu umferðir. vísir/anton
Það var létt yfir Einari Andra Einarssyni, þjálfara Aftureldingar, eftir sigur hans manna á Val í kvöld.

    

„Þetta var hrikalega sætur sigur. Við vorum í vandræðum stóran hluta leiksins en strákarnir héldu áfram og fundu einhvern kraft til þess að klára þetta. Ég veit ekki alveg hvaðan hann kom,“ sagði Einar Andri.

Mosfellingar voru í miklu basli í fyrri hálfleik þar sem sóknarleikur liðsins gekk mjög illa. En hvað breyttist til batnaðar í seinni hálfleik?

„Sölvi [Ólafsson] kom í markið, fór að verja og kveikti í þessu. Hann gaf okkur það sem upp á vantaði. Elvar [Ásgeirsson] steig upp og Árni Bragi [Eyjólfsson] var góður allan leikinn,“ sagði Einar Andri.

Afturelding er komið með sex stiga forystu á toppi Olís-deildarinnar eftir átta sigurleiki í röð. Einar Andri segist ekki hafa átt von á svona góðu gengi í upphafi tímabils.

„Staðan á okkur með meiðsli var ekki góð í sumar, við vorum slakir á undirbúningstímabilinu og töpuðum fyrsta leik. Þannig að ef þú hefðir spurt mig þá hvort við myndum vinna átta leiki í röð hefði það verið algjörlega út úr korti. En við höfum fundið einhverja formúlu sem virkar,“ sagði þjálfarinn.

Sterka leikmenn vantar í lið Aftureldingar vegna meiðsla. Einar Andri segir ekki sjálfgefið að liðið verði sterkara þegar þeir koma til baka.

„Það eru margir að spá í þetta en það er ekkert sjálfsagt mál að við verðum betri en við erum núna. Það þarf að búa til liðsheild og það verður púsluspil að koma þessu saman. En strákana hungrar í árangur þannig að ég hef ekki miklar áhyggjur af því,“ sagði Einar Andri að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×