Körfubolti

Pavel: Verður eins og að taka þakið af húsinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij, leikmaður KR.
Pavel Ermolinskij, leikmaður KR. Vísir/Stefán
Pavel Ermolinskij lék í kvöld sinn fyrsta leik í Dominos-deildinni þetta tímabilið. Hann var ánægður að vera kominn til baka en KR vann stórsigur á Haukum.

„Það er æðislegt að vera kominn aftur. Það var smá stress en nú er mér létt að þetta sé frá, fyrsti leikurinn er alltaf erfiður. Nú get ég einbeitt mér að því að líða eins og körfuboltamanni aftur,“ sagði Pavel og sagðist vera í fínu standi.

„Skrokkurinn er í topplagi, eða svona. Það vantar smá leikform og ég er aðeins eftir á í nokkrum hlutum. En ég finn ekki fyrir neinu og ég þarf aðeins að komast í betra form og þá er ég klár.“

KR og Haukar mættust í úrslitum deildarinnar á síðasta tímabili en sigur KR var afgerandi í kvöld og Haukarnir áttu ekki möguleika gegn feiknasterkum KR-ingum.

„Að sjálfsögðu var þetta auðveldara en við áttum von á. Við þekkjum þá mjög vel og fátt sem kemur okkar á óvart í leik þeirra. Við náum alltaf að einbeita okkur vel fyrir þessa leiki og náum að vera skrefinu á undan þeim og það var það sem gerðist í dag.“

KR er með fullt hús stiga eftir fyrstu fjóra leikina og liðið hefur verið að leika fínan boltan án Pavel sem hefur gegnt lykilhlutverki hjá liðinu síðustu ár.

„Strákarnir hafa verið að spila frábærlega og nú þurfum við gömlu mennirnir sem erum að koma inn núna að passa okkur að vera ekki riðla of mikið til og bæta ofan á það sem strákarnir hafa verið að gera,“ sagði Pavel og bætti við.

„Það verða kannski smá vaxtaverkir á leiðinni. Þetta verður kannski eins og að taka þakið af húsinu og ætla að byggja aðra hæð. Á meðan þakið er af er þetta erfitt en síðan ertu komin með aðra flotta hæð á þetta,“ sagði Pavel að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×