Jón Þórisson hefur verið tengiliður erlendra fjölmiðla við Pírata síðustu daga og segist ekki hafa tölu á þeim fjölmiðlum sem hafa haft samband.
„Það eru um fimmtíu fjölmiðlar á landinu, blaðamenn og fréttamenn, en mun fleiri hafa tekið síma- og Skypeviðtöl við frambjóðendur Pírata,“ segir hann og bætir við að erlendu fjölmiðlarnir hafi einnig haft áhuga á að tala við aðra stjórnmálamenn en fátt sé um svör.
„Við höfum verið spurð hvernig hægt sé að ná í íslenska ráðamenn, því erlendir blaðamenn virðast ekki ná tali af hvorki Bjarna Ben né Sigmundi Davíð.“

„Margir sem tala við okkur segja að hér gæti eitthvað verið að fæðast sem gæti haft mikil áhrif á stjórnmál annars staðar í heiminum,“ segir Jón.
Fyrirsagnir virtra fjölmiðla víðs vegar um heiminn eru á þá leið að Ísland gæti orðið fyrsta ríkið til að vera stjórnað af Pírötum. Að flokkur sem aðhyllist beint lýðræði, gegnsæi og afglæpavæðingu eiturlyfja eigi góðan möguleika á að komast í ríkisstjórn.
Anna Gaarslev, fréttamaður Danmarks Radio, segir Panamaskjölin vissulega hafa vakið áhuga heimsbyggðarinnar á íslenskum stjórnmálum en að vinsældir Pírataflokksins í kjölfarið sé ástæðan fyrir komu þeirra til landsins.
„Þetta er það nýja á þessu ári, Pírataflokkurinn. Þetta er þróun sem hefur borist til Íslands, tilhneiging sem við sjáum í svo mörgum öðrum löndum. Í Evrópu sjáum við til dæmis Fimm stjörnu hreyfinguna á Ítalíu, og Podemos á Spáni. Þetta eru flokkar sem segja: Ættum við ekki að gera þetta öðruvísi? Gerum eitthvað nýtt. Valdapólitíkin er dauð,“ segir fréttamaðurinn danski.