Erlent

Voru beðin um að hrósa hvort öðru

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Frambjóðendurnir tókust í hendur í kjölfar spurningar Becker, en þau höfðu ekki gert það í byrjun líkt og siður er fyrir.
Frambjóðendurnir tókust í hendur í kjölfar spurningar Becker, en þau höfðu ekki gert það í byrjun líkt og siður er fyrir. Vísir/Getty
Karl Becker, einn þeirra óákveðnu kjósenda sem voru viðstaddir forsetakappræður gærkvöldsins í Bandaríkjunum, sló í gegn með spurningu sinni þegar hann bað frambjóðendurna um að nefna einn jákvæðan eiginleika í fari andstæðings síns.

Clinton reið á vaðið og sagðist bera virðingu fyrir börnum Trump. Hún sagði þau vera mjög fær og mjög trygglynd.

„Ég tel að það segi mikið um Donald. Ég er ósammála nær öllu öðru sem hann segir eða gerir, en ég ber virðingu fyrir því. Og það er eitthvað, sem móðir og amma, skiptir mig miklu máli.“

Trump sagði ummæli Clinton vera fallegt hrós. „Ég veit ekki hvort þeim var ætlað að vera hrós, en ég tek þeim sem slíku. Ég er mjög stoltur af börnunum mínum,“ sagði Trump.

„Ég get sagt þetta um Hillary, hún gefst ekki upp. Ég ber virðingu fyrir því. Ég segi það eins og það er. Hún er baráttukona. Ég er ósammála mörgu sem hún er að berjast fyrir, ég er ósammála dómgreind hennar í mörgum tilfellum, en hún leggur hart að sér og hún gefst ekki upp og ég tel það vera mjög góðan eiginleika.“

Spurningin sló botninn í fremur hatrammar kappræður og tókust frambjóðendur í hendur í lokin, en þau höfðu ekki gert það í byrjun, líkt og siður er fyrir.

Óhætt er að segja að Karl Becker hafi sigrað hug og hjörtu netverja með spurningu sinni, en kappræðurnar höfðu einkennst af töluverðum persónuárásum.

Samantekt CNN af svörum Clinton og Trump við spurningunni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×