Könnunin, sem framkvæmd var á laugardag og sunnudag og nær því ekki til þeirra kappræðna sem fóru fram í nótt, sýnir að Clinton nýtur 52 prósent fylgis en Trump aðeins 38 prósent fylgis, séu kjósendur aðeins spurðir um hvort þeir myndu kjósa Trump eða Clinton.
Sjá einnig: Silja Bára um kappræðurnar: Ekki sæmandi frambjóðanda til valdamesta embættis heims
Séu frambjóðendur Græningja og Frjálshyggjuflokksins, Jill Stein og Gary Johnson, teknir með í reikninginn er munurinn á Trump og Clinton 46-35 prósent Clinton í vil. Johnson nýtur stuðnings níu prósent aðspurðra en Stein aðeins tveggja prósenta.

Líkt og fyrr segir mælir könnuninn ekki áhrif frammistöðu frambjóðendanna tveggja í kappræðunum sem fóru fram í gær þar sem Clinton er talin hafa borið sigur úr bítum aðrar kappræðurnar í röð.
Sjá einnig: Kappræðurnar: Lygar og teygður sannleikur
Samkvæmt sérstöku reiknilíkani vefsíðunnar FiveThirtyEight hafa sigurlíkur Clinton aukist gríðarlega að undanförnu. Hafa þær risið jafnt og þétt eftir fyrstu kappræðurnar sem fram fóru í síðasta mánuði en í aðdraganda þeirra hafði Trump sótt mjög á Clinton í skoðanakönnunum. Metur FiveThirtyEight sigurlíkur Clinton sem 79 prósent gegn 21 prósenti Trump.
Samantektarkönnun Huffington Post sem marktækar kannanir sem framkvæmdar eru í Bandaríkjunum eru teknar saman og sjá má hér að neðan sýnir að Clinton nýtur 48,7 prósent fylgis gegn 41,8 prósent fylgi Trump.
Gengið verður til kosninga í Bandaríkjunum þann 8. nóvember næstkomandi.