Viðskipti erlent

Galaxy Note 7 bannaðir í öllu flugi til og frá Bandaríkjunum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Samsung hefur lent í miklum vandræðum vegna símans.
Samsung hefur lent í miklum vandræðum vegna símans. Vísir/EPA
Samgönguyfirvöld í Bandaríkjunum hafa lagt blátt bann við því að farþegar og aðrir ferðist með Samsung Galaxy Note 7 síma í flugi til og frá Bandaríkjanna frá og með deginum í dag. BBC greinir frá.

Líkt og greint hefur verið frá á þessi gerð síma það til að ofhitna og springa. Vandamálið kom upp í ágúst og þá hvöttu flugmálayfirvöld eigendur símana til þess að ferðast ekki með þá í háloftunum án þess þó að banna það.

Samgönguyfirvöld segjast skilja að bannið geti valdið farþegum óþægindum en öryggi flugvéla sé mikilvægara. Segja þau að springi sími um borð í flugvél á lofti geti það skapað stórhættu.

Samsung afturkallaði um 2,5 milljónir síma vegna gallans og taldi sig hafa komist fyrir vandann. Svo virðist þó ekki vera raunin enda hafa símtæki sem áttu að vera laus við vandamálið einnig sprungið.

Fjölmiðlar ytra hafa velt vöngum yfir því hvort að Samsung viti í raun og veru nákvæmlega hvað sé að símunum en fyrirtækið hefur hefur nú þegar ákveðið að hætta alfarið sölu og framleiðslu á símanum. Talið er að gallinn muni kosta Samsung um 600 milljarða þegar uppi er staðið.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×