Viðskipti innlent

Geysir verðlaunað fyrir fjárfestingu í hönnun

Sæunn Gísladóttir skrifar
Jóhann Guðlaugsson og hönnuðir fyrirtækisins tóku við verðlaununum fyrir hönd Geysis.
Jóhann Guðlaugsson og hönnuðir fyrirtækisins tóku við verðlaununum fyrir hönd Geysis. Vísir/Stefán
Í gær hlaut Geysir viðurkenningu á Hönnunarverðlaunum Íslands fyrir bestu fjárfestinguna í hönnun. Í umsögn dómnefndar um Geysi segir meðal annars að Geysir hafi fengið einhverja færustu hönnuði landsins til starfa á öllum vígstöðvum, þannig hafi fyrirtækið skilgreint mikilvægi hönnunar í öllu þróunarferli og skapað ímynd og upplifun tengda fyrirtækinu með framúrskarandi hætti.

„Að fá svona verðlaun er gríðarleg viðurkenning fyrir okkur, þá fær maður klapp á bakið og staðfestingu á því að við séum að gera eitthvað rétt," segir Jóhann Guðlaugsson, eigandi Geysis, sem tók við verðlaununum í gær.

„Það má segja að viðskipta konsept fyrirtækisins sem rekur Geysisbúðirnar gangi allt út á hönnun, við höfum unnið með Ernu fatahönnuði, sem má segja að sé listrænn stjórnandi í fyrirtækinu, svo höfum við unnið með Hálfdáni Péturssyni við hönnun búða okkar. Við höfum fjárfest mjög mikið í því að gera þær fallegar og styðja við konseptið."

„Einar Geir Ingvarsson, grafískur hönnuður, er eiginlega auglýsingastofan okkar og kemur að öllu varðandi hönnun á auglýsingum og pakkningum og annað slíkt. Þetta er svo allt unnið í teymisvinnu innanhúss. Allt okkar konsept gengur út á metnaðarfulla hönnun, að minnsta kosti reynum við það. Þetta þarf allt að tala saman og ef einn hlekkur er brotinn þá virkar keðjann ekki," segir Jóhann.

Verðlaun fyrir fjárfestingu í hönnun voru fyrst veitt í fyrra en þá hlaut stoðtækjafyrirtækið Össur þau.

Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar segist hafa viljað heiðra þá aðila sem taka stór og eftirtektaverð skref í þessa átt. „Þarna erum við að draga fram fyrirtæki sem eru ekki endilega sýnileg öðrum, og sýna hvaða fyrirtæki eru að vinna með þessum aðferðum."


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×