Ný sókn stjórnarhers Sýrlands var tilkynnt í ríkissjónvarpi landsins og var borgurum í Aleppo skipað að halda sér frá hryðjuverkamönnum og stöðum þar sem þá má finna. (Ríkisstjórn Sýrlands kallar allar fylkingar sem berjast gegn sér hryðjuverkamenn.) Þá höfðu loftárásir á borgina þó staðið yfir í tvo daga áður en tilkynningin var birt.
Stjórnarherinn lýsti því yfir á mánudaginn að þeir myndu hætta að fylgja skilmálum vopnahlés Bandaríkjanna og Rússlands. Þeir sökuðu uppreisnarmenn um að hafa margrofið vopnahléið en ásakanir um slíkt höfðu gengið víxl alla vikuna sem vopnahléið var í gildi.
Loftárásir hafa verið gerðar á borgina á hverjum degi frá því á mánudaginn. Talið er að tugir hafi látið lífið.
Í samtali við Reuters sagði Ammar al-Selmo, yfirmaður björgunarsveita Aleppo, að fimm rússneskar flugvélar hefðu verið á sveimi yfir borginni.
Aleppo var stærsta borg Sýrlands áður en styrjöldin hófst í Sýrlandi. Hún hefur orðið verulega illa úti í átökunum, en stjórnarherinn hefur í raun setið um yfirráðasvæði uppreisnarmanna í tvo mánuði.