Fótbolti

Zabaleta um jafnteflið við Celtic: Við sýndum karakter

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zabaleta býr sig undir að tækla Moussa Dembele.
Zabaleta býr sig undir að tækla Moussa Dembele. vísir/getty
Argentínski bakvörðurinn Pablo Zabaleta segir að Manchester City hafi sýnt karakter þegar liðið gerði 3-3 jafntefli við Celtic í Glasgow í Meistaradeild Evrópu í gær.

Celtic, sem komst þrisvar yfir í leiknum, varð þar með fyrsta liðið á tímabilinu sem City tekst ekki að vinna. Fyrir leikinn á Celtic Park voru lærisveinar Peps Guardiola búnir að vinna fyrstu 10 leiki sína á tímabilinu.

Þrátt fyrir þetta bakslag reyndi Zabaleta að taka það jákvæða út úr leiknum.

„Það sýnir karakter að jafna í þrígang,“ sagði Argentínumaðurinn.

„Við vorum nokkuð óheppnir að skora ekki undir lokin. Við sköpuðum góð færi og höfðum stjórn á leiknum í seinni hálfleik.“

Zabaleta segir að leikmenn City hafi ekki vanmetið Celtic-liðið í gær.

„Fyrir leikinn sögðum við að það yrði erfitt að koma hingað og ná í úrslit. Þetta er sögufrægt félag og liðið er allt öðruvísi á heimavelli en útivelli,“ sagði Zabaleta.

City er með fjögur stig í 2. sæti C-riðils, tveimur stigum á eftir toppliði Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×