Belgíska konan Marieke Vervoort er að glíma við ólæknandi vöðvahrörnunarsjúkdóm. Sjúkdómurinn mun valda henni gríðarlegum sársauka síðar og hún ætlar ekki að ganga í gegnum það helvíti.
Fyrir átta árum síðan gekk þessi 37 ára gamla kona frá öllum pappírum þannig að hún getur bundið löglega endi á sitt líf er hún biður um það.
Belgískir fjölmiðlar birtu fréttir af því að hún ætlaði að binda enda á líf sitt eftir Ólympíumótið en það er ekki rétt.
„Ég er enn að njóta hverrar stundar. Þegar vondu dagarnir verða orðnir fleiri en þeir góðu þá mun ég fara en það er ekki enn komið að því,“ sagði Vervoort.

Mótið í Ríó er hennar svanasöngur í íþróttunum enda er líkamlegt ástand hennar orðið þannig að það er orðið of erfitt að æfa.
„Ég er mjög ánægð að hafa fengið silfur núna. Það er samt súrsætt því ég hef gengið í gegnum miklar kvalir og svo er erfitt að kveðja íþróttaferilinn. Íþróttir hafa verið mitt líf.“
Líknardráp er löglegt í Belgíu og hún segir möguleikann á þessari útgönguleið hafa gefið henni hugrekki.
„Fólk finnur fyrir ákveðinni ró að hafa þennan valmöguleika. Ég er viss um að ég veit hvenær ég vil fara.“