Erlent

Vopnahléið hélt fyrstu nóttina

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðlimir stjórnarhersins í Aleppo.
Meðlimir stjórnarhersins í Aleppo. Vísir/EPA
Vopnahléið í Sýrlandi virðist hafa haldið að mestu fyrstu nóttina sem það var í gildi. Íbúar í Aleppo segja nóttina hafa verið rólega og eftirlitsaðilar segja að engir almennir borgarar hafi látið lífið.

Átök hafa þó farið fram í Sýrlandi þar sem Íslamska ríkið og Jabat Fateh al-Sham, al-Qaeda í Sýrlandi, eru undanskilin vopnahléinu.

Samkvæmt frétt BBC hafa borist fregnir af einstaka árásum sem brjóta gegn vopnahléinu og eru bæði stjórnarherinn og uppreisnarmenn sagðir hafa gert slíkar árásir.

Vopnahléið er runnið undan rifjum Bandaríkjanna og Rússlands og á að standa yfir í sjö daga. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir tilraunina mögulega vera síðasta tækifærið til að bjarga sameinuðu Sýrlandi.

Haldi vopnahléið í sjö daga ætla Bandaríkin og Rússland að hefja samstarf gegn ISIS og JFS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×