Staða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er ekki sterk innan Framsóknarflokksins. Nú er mjög reynt að fá því framgengt innan flokksins að boðað verði til landsþings í september þar sem kosið verður um nýja stjórn flokksins. Þrjú kjördæmisþing eru haldin í dag og mun tillaga þess efnis að boða til landsþings sem fyrst verða borin upp í Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi.
Fréttablaðið hefur rætt við fjölda framsóknarmanna vítt og breitt um landið síðustu daga og má segja að einhugur sé um að boðað verði til landsþings fyrir kosningar. Margir tala um að það yrði stórslys fyrir flokkinn ef hann næði ekki að stilla saman strengi sína fyrir kosningar með landsþingi. Aðrir tala um hefðir í því sambandi og segja annað ekki koma til greina.
Á landsþingi verður kosin ný forysta eins og lög flokksins gera ráð fyrir og gera framsóknarmenn ráð fyrir að sitjandi formaður fái mótframboð.
Kjördæmisþingin gætu sjálf ákveðið að halda landsþing. Í lögum flokksins segir að ef þrjú kjördæmisþing óski eftir landsþingi þurfi að halda slíkt. Því þyrfti ekki að bíða eftir ákvörðun miðstjórnar sem kemur saman um miðjan september. Segja margir því að þessi helgi gæti skipt miklu máli um framtíð forystu flokksins.
Margir framsóknarmenn líta svo á að ekki verði hægt að fara inn í kosningabaráttu með núverandi flokksformann við stjórnvölinn. Þrátt fyrir að margir beri honum vel söguna og segi hann hafa staðið sig vel hafi atburðir síðasta vors orðið til þess að traust til hans hafi glatast. Þungavigtarmenn í bæði Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi segjast ekki geta hugsað þá hugsun til enda að Sigmundur Davíð verði formaður í næstu kosningum.
Í Norðausturkjördæmi skiptir í tvö horn. Í Eyjafirði er mestu andstöðuna gegn Sigmundi að finna og einnig eru margir í Þingeyjarsýslum á þeirri skoðun að hann þurfi að víkja. Sigmundur hefur síðan ágætis stöðu á Austurlandi þar sem sterkasta vígi hans virðist vera.
Ekki náðist í Sigmund Davíð Gunnlaugsson við vinnslu fréttarinnar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir síðustu daga.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu
Innlent