Íslenski boltinn

Kristinn Freyr: Þetta var siðlaust, ég viðurkenni það

Smári Jökull Jónsson á Valsvellinum skrifar
Kristinn Freyr kláraði leikinn í kvöld.
Kristinn Freyr kláraði leikinn í kvöld. vísir/hanna
Kristinn Freyr Sigurðsson var enn og aftur á skotskónum með Valsmönnum í kvöld þegar þeir mættu KR. Hann skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri þegar Hlíðarendapiltar unnu sinn þriðja sigur í röð í Pepsi-deildinni.

„Allir Valsarar eru ánægðir með þennan sigur í kvöld. Það var frábær stemmning og langt síðan svona margir hafa komið á völlinn. Þetta var geggjað,“ sagði Kristinn Freyr í samtali við Vísi eftir leik.

Dómarinn var töluvert áberandi í leiknum í kvöld og leikmenn beggja liða kvörtuðu mikið í Guðmundi Ársæli Guðmundssyni sem dæmdi leikinn. KR-ingar þó öllu meira enda kláruðu þeir leikinn einum færri auk þess að fá á sig vítaspyrnu.

„Ég veit ekkert um þetta rauða spjald, ég sá ekki einu seinni hverjum hann var að gefa spjald. Mér er eiginlega alveg sama hvernig við vinnum þennan leik. Að vinna KR 2-0 er bara geggjað.“

Í fyrri hálfleik varð umdeilt atvik þegar KR-ingurinn Michael Præst meiddist. Leikurinn hélt áfram og Kristinn Freyr nýtti sér það að Præst lá langt fyrir aftan varnarlínu KR og spilaði sóknarmenn Vals réttstæða. Kristinn viðurkenndi að þetta hefði verið siðlaust af hans hálfu.

„Þetta var siðlaust, ég viðurkenni það alveg. Ég er í þessu til að vinna fótboltaleiki en ekki til að eignast vini og er til í að gera hvað sem er til að vinna. Þetta heppnaðist reyndar ekki en ég veit að þetta er siðlaust og svo sem ekkert meira um það að segja,“ sagði Kristinn Freyr að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×