Anton Sveinn McKee náði ekki að fylgja eftir frábærum árangri íslensku sundstelpnanna og hefur nú lokið keppni á Ólympíuleikunum í Ríó. Hann var aðeins tveimur sætum og fjórtán sekúndubrotum frá því að komast í undanúrslit á Ólympíuleikunum í Ríó í gær.
Anton Sveinn komst í úrslit í bæði 100 og 200 metra bringusundi á Evrópumótinu í London í maí en hann komst ekki í gegnum undanrásirnar í þessum greinum á Ólympíuleikunum í Ríó.
„Þetta er sterkasti íþróttaviðburður í heimi og það var draumurinn að komast áfram. Það gerist kannski næst,“ sagði Anton Sveinn sem hefur greinilega þegar sett stefnuna á ÓL í Tókýó 2020.
„Vissulega ætlaði ég mér meira en svona er þetta. Þetta fer í reynslubankann og þetta var ekki slæmt sund. Ólíkt hundrað metra sundinu þá náði ég að útfæra þetta sund eins og ég vildi,“ sagði Anton.
„Ég komst inn í mína taktík og leit töluvert betur út í þessu sundi. Það hefur kannski vantað eitthvað upp á en það er eitthvað sem ég fer yfir með þjálfurunum,“ sagði Anton.
Fyrir ári var hann í úrslitasundinu í 200 metra bringusundinu á HM í Kazan og synti meira en sekúndu hraðar í sinni bestu grein. Hvað breyttist?
„Ég á að vera í betra formi núna en á HM en við æfðum þetta allt öðruvísi fyrir HM. Þá voru töluvert erfiðari æfingar og ekki tekin eins mikil hvíld. Það er spurning hvort sé betra og það er eitthvað sem við verðum að fara yfir. Við munum bera þetta saman og kíkja á allt,“ sagði Anton Sveinn í gær.
Hann varð í 18. sæti í 200 metra bringusundi og í 35. sæti í 100 metra bringusundi. Hann er ekki á því að áreitið af því að vera á Ólympíuleikunum og við þessar sérstöku aðstæður hafi verið orkuþjófur fyrir hann.
„Ég fór á leikana 2012 og vissi hvað ég var að fara út í. Mér líður vel í þessu Ólympíuumhverfi og ég held að það hafi ekki haft slæm áhrif. Þetta small bara ekki í dag,“ sagði Anton eftir sundið í gær.
Sport