Tíska og hönnun

Ásta Kristjáns í ítalska Vogue

Guðrún Ansnes skrifar
Ásta hefur lengi heillast af rafmagnsstaurunum og greinilegt að þeir eigi líka upp á pallborðið hjá ítölsku tískudrottingunni.
Ásta hefur lengi heillast af rafmagnsstaurunum og greinilegt að þeir eigi líka upp á pallborðið hjá ítölsku tískudrottingunni. Ásta Kristjánsdóttir
Bransinn er að opnast, meiri samvinna hjá fólki og þetta er að breytast mikið að því leyti að þú þarft ekki að búa í New York til að eiga möguleika á að fá stór verkefni og birtingu í stórum miðlum,“ segir ljósmyndarinn Ásta Kristjánsdóttir, en ítalska Vogue birti mynd eftir hana á dögunum.

„Maður þarf ekki lengur að labba milli fyrirtækja í stórborgum með möppuna sína til að eiga möguleika,“ segir Ásta og skellir upp úr.

Spurð um hvernig það æxlist að slíkt tækifæri skjóti upp kollinum svarar hún: „Ég var í svokölluðu workshop hjá fyrirtækinu Mastered og tók þar námskeið hjá tískuljósmyndaranum Nick Knight. Þau komu hingað til lands og Alessia Glaviano, aðstoðarritsjóri ítalska Vogue og Vogue homme, skoðaði möppuna mína. Hún var rosalega hrifin af þessari mynd og bað mig að senda sér hana, sem ég gerði. Svo birtist myndin mín í kjölfarið.“

Myndin sem um ræðir var tekin á Hellisheiði fyrir rúmum tveimur vikum. Íslenskt landslag með fyrirsætu í kjól frá Skaparanum og rafmagnsstaurana í baksýn virðist hafa heillað þá ítölsku.

Ásta segist lengi hafa heillast af rafmagnsstaurunum sem koma má auga á vítt og breitt um landið. „Formið á staurunum er skemmtilegt og mig hefur lengi langað að mynda þá. Ég fékk svo Ásgrím Má, hönnuð og stílista, til að stílisera fyrir mig og svo má geta þess að Guðrún Dögg sem sá um förðunina var líka í Mastered-skólanum, nema í förðunarprógramminu,“ bendir hún á.

Ásta Kristjánsdóttir hefur verið af fullum þunga í faginu í um þrjú ár.
Ásta segir gríðarleg tækifæri felast í að fá mynd birta á jafn stórum vettvangi og ítalska Vogue raunverulega er. „Það er ótrúlega gaman að fá að taka þátt í þessu og að komast í samband við Condé Nast er mjög gott.

Þó svo að greiðslan fyrir birta mynd sé ekki há, þá fylgir svona birtingu mikil athygli og umfjöllun,“ segir Ásta og segir að vel geti verið að í kjölfarið muni stór verkefni dúkka upp.

Ásta segist jafnframt alsæl með ljósmyndanámið. 

„Ég er eini Íslendingurinn sem fór í ljósmyndanámið. Mér finnst Íslendingar svolítið ragir við að nýta sér skóla á netinu, en ég fékk hins vegar mjög mikið út úr þessu námi,“ segir hún og ber hana saman við reynslu sína af árs löngu námi við Parsons School of Design í New York.

Hún fagnar því sömuleiðis að landslagið sé að breytast talsvert með tilkomu samfélagsmiðlanna.

„Þeir eru orðnir svo sterkir sem þýðir að það er hægt að fylgjast með því sem er að gerast, sama hvar maður er staddur í heiminum. Tækifærin verða þannig jafnari fyrir ljósmyndara eins og okkur hér á Íslandi,“ segir Ásta. 

Hægt er að skoða fleiri verk Ástu á heimasíðu hennar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.