Finnst maður aldrei nógu góður í þessu fagi Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar 13. ágúst 2016 08:00 "Yfirleitt þegar við erum á æfingum saman segir mamma: "Ekki lyfta mér, ekki lyfta mér,“ en svo lyfti ég henni og við erum bæði á lífi!“ Vísir/Eyþór Árnason Þau eru í óðaönn að flokka og pakka öllum eigum sínum niður og tæma húsið, mæðginin Katrín Hall og Frank Fannar, því fjölskyldan er öll að flytja af landinu. Hann hefur reyndar verið dansandi suður í Evrópu síðustu átta ár, fyrst á Spáni, svo í Þýskalandi, nú í Sviss en heimili hans hefur þó verið við Suðurgötuna hjá foreldrum og systur. Nú eru þau á förum til Svíþjóðar. Það gerir dansinn. Katrín er að taka við listrænni stjórn hjá einum virtasta nútímadansflokki Evrópu, í Gautaborg. Guðjón Pedersen, fyrrverandi leikhússtjóri, maður hennar, og dóttirin Matthea Lára, 16 ára, fylgja henni. „Maður þarf að fara í gegnum ansi margt. Það er heljar mál að koma heilli fjölskyldu út og tæma hús sem maður hefur búið í lengi,“ viðurkennir Katrín. „Ég hafði það sem forgangsverkefni að finna góðan skóla fyrir Mattheu Láru og tókst að finna alþjóðlegan menntaskóla sem vel er látið af. Hún byrjar þar 22. ágúst.“ Frank segir aðdáunarvert hvað systir hans hafi tekið þessum breytingum á þroskaðan hátt, sextán ára og að flytja frá öllum vinunum. Minnist þess þegar hann hélt út í heim í dansnámið. „Ég var þó búinn með menntaskólann og fór af eigin hvötum, var líka að fara í mitt uppáhald – en ég var reyndar einn.“ Þetta kallar á erfiða upprifjun hjá Katrínu. „Hann byrjaði í Barcelona. Við foreldrarnir vorum með honum þar nokkra daga að finna íbúð og klára ýmsa praktíska hluti en þegar við skildum hann eftir, 18 ára, í þessari risastóru borg þá leið okkur skringilega og kveðjustundin var dramatísk.“ „Þetta var líka svolítið erfið borg að byrja í, aðallega töluð spænska og katalónska,“ segir Frank. „En ég var í mjög virtum flokki fyrir unga dansara svo það var góður stökkpallur út í lífið og atvinnumennskuna. Ég var að vinna með mjög færum danshöfundum, hvað yngstur þeirra sem komu erlendis frá. Hélt aldrei að ég mundi komast inn.“ „Svo kom í ljós að hann þurfti að velja,“ upplýsir móðir hans. „Hann var að hugsa um að fara í skóla í Rotterdam dansakademíunni og komst þar inn. Ég var að setja upp verk í Graz í Austurríki og fékk hann með mér þangað í nokkra daga áður en hann fór til Barcelona í inntökuprófið, þá var honum boðinn samningur þar. Svo komst hann líka inn í Barcelona.“ Frank tekur undir þá ályktun mína að hann hafi verið þokkalegur en kveðst ekki hafa hugsað þannig á þeim tíma. Móðir hans útskýrir hvers vegna „Manni finnst maður aldrei nógu góður í þessu fagi. Aldrei fullnuma, alltaf að læra og þroskast og finna nýjar leiðir, dansinn er í eðli sínu þannig listgrein.“ Þessu er Frank sammála. „Þegar manni finnst maður orðinn nógu góður á maður að hætta því þá er leitinni hætt.“Ljósmóðirin dró hana í dansinn Þó Frank sé Íslendingur inn að beini hefur hann dvalið lengur erlendis en á Íslandi á sinni ævi. Var í Köln í Þýskalandi fyrstu sex árin þar sem mamma hans starfaði á þeim tíma. Fór svo út í heim átján ára, eins og fram er komið, var í dansflokknum í Wiesbaden í þrjú ár og er nú fastráðinn í Basel í Sviss að minnsta kosti ár í viðbót. Það er ekki erfitt að giska á af hverju hann byrjaði að dansa, verandi sonur Katrínar Hall, dansara og stjórnanda Íslenska dansflokksins um árabil. En hvernig kynntist hún dansinum? „Ég fór með vinkonum í dans sem barn eins og gjarnan gerist og þar varð ég fyrir áhrifum. Svo skráði hún amma mín, Katrín Hall ljósmóðir, mig í inntökupróf í Listdansskóla Þjóðleikhússins og dró mig þangað svo það er fyrir hennar tilverknað að ég er það sem ég er. Ég byrjaði snemma í dansflokknum og var samhliða í MR. Það var strembið en Guðni rektor var menningarlega sinnaður og sá að það var einhver alvara í þessu hjá mér svo ég var með frjálsa mætingu í 5. bekk og utanskóla í 6. bekk. Ég skil ekki alveg hvernig það gekk upp. Held ég hafi líka fengið upp í kok af bóknámi svo dansinn tók yfir. Það að gera dansinn að atvinnu var eitthvað sem ég gat varla ímyndað mér að gæti gerst og var ekki endilega langþráður draumur heldur meira bara eðlileg framvinda.“ Frank horfir brosandi á móður sína. „Mér finnst fyndið að heyra þig lýsa þessu því þú gætir verið að tala fyrir okkur bæði,“ segir hann. „Ég var með frjálsa mætingu í menntó og utanskóla síðasta árið.“ Þegar að er gáð lauk Frank menntaskólanámi á styttri tíma en algengt er. „Ég þurfti að drífa mig. Það er stundum þannig þegar tækifærin koma. En ég segi eins og mamma, ég skil ekki hvernig mér tókst að ljúka prófum. Í dag lifi ég lúxuslífi, bara að vinna vinnuna mína!“ Katrín bendir á að krakkar sem velja sér feril í listum og íþróttum verði að vera skipulögð og öguð og það fylgi þeim út í lífið.Katrín viðurkennir að hún sé með fullkomnunaráráttu sem Frank Fannar hafi erft.Bæði með hnjávandamál Bæði unnu Katrín og Frank við annað en dans á námsárunum. Katrín til dæmis í tískubúðinni Evu galleríi og Sjóvá og vann sér fyrir krefjandi dansnámskeiðum í New York, Dresden og Köln. Frank kveðst hafa sumarvinnu á Subway á ferilskránni og þjónsstarf á Óðinsvéum „hjá Sigga frænda“ en fannst æðislegast að vera í skapandi sumarstörfum hjá borginni að búa til sýningar niðri í bæ. „Það er hollt fyrir krakka að vinna fyrir hlutunum og fá ekki allt upp í hendurnar. Þau fá annað verðmætamat,“ segir Katrín. Frank kvartar ekki yfir kaupinu í Basel, kveðst þó halda að það sé lægra en hjá skúringafólkinu. „Dansararnir eru með þeim lægst launuðu í leikhúsinu þó við höfum átt farsælustu sýninguna á síðasta ári. Mest seldu. Það skilar sér ekki til okkar.“ Skyldu þau aldrei óttast að meiðast og eyðileggja atvinnutækið? „Það er allt í lagi þó ég meiðist, ég get stjórnað með hækju,“ segir Katrín glettnislega. Frank segir ekki gaman að dansa ef óttinn sé með í för, en sjaldgæft sé að dansarar detti og verði fyrir slysum, hitt sé algengt að þeir byrji hægt og rólega að finna einhvers staðar til. „Dansari lærir á líkama sinn, þekkir merkin og hugsar, ókei, nú þarf ég að passa aðeins betur upp á þetta svæði.“ Móðir hans tekur undir það. „Oft eru dansarar með króníska veikleika. Við Frank erum til dæmis bæði með hnjávandamál en vinnum okkur kringum þau og ef við þurfum í aðgerð þá förum við á sumrin til að vera klár í dansinn í ágúst! Álagið á líkamann er mikið og það eru gerðar æ meiri kröfur af hálfu danshöfunda.“ Frank grípur boltann. „Já, dansformið er alltaf að þenjast út, og oft þarf maður að takast á við ýmislegt annað en dans, vera opinn fyrir öllu og þora að fara út fyrir eigin þægindaramma.“ Yfir til danshöfundarins og listdansstjórans. „Einmitt. Stjórnendur rýna mikið í persónuleika hvers og eins dansara. Danstækni er auðvitað nauðsynleg en það skiptir líka máli hvernig dansarinn tengist áhorfendum og öðrum dönsurum og hvað hann hefur að gefa inn í flokkinn sem listamaður. Hefur jafnvel eigin hreyfiforða og spinnur með hann. Þetta er þróun sem ég tel áhugaverða því þannig er dansarinn virkur þátttakandi í sköpunarferlinu og það er gefandi og þroskandi. Svo verður hann líka að treysta danshöfundinum til að ögra sér og finna nýjar hliðar sem hann vissi kannski ekki um sjálfur.“ Katrín tók formlega við veldissprotanum í dansflokki Gautaborgaróperunnar í byrjun ágúst og er ráðin þar næstu fjögur ár með möguleika á eins árs framlengingu. Hún segir hið nýbyrjaða leikár hafa verið planað af forvera sínum. „Þessi bransi er þannig að allt er skipulagt svo langt fram í tímann að ég er meira að segja að verða of sein að skipuleggja þar næsta leikár. Ég þarf að bretta upp ermarnar hvað það varðar en er reyndar byrjuð á því samhliða öðru. Það er margt í gangi í kollinum á mér. Þetta er stór flokkur sem ég er að taka við og því hátt fjall að klífa en jafnframt ótrúlega ögrandi og spennandi verkefni. Sú reynsla að hafa stjórnað Íslenska dansflokknum í 15 ár og að hafa einnig starfað sjálfstætt sem höfundur mun án efa nýtast mér vel.“ Fjögur mismunandi dansverk bíða Franks í Basel, þar af tvö eftir sænska höfunda. „Þetta eru ólík verkefni svo það er spennandi leikár framundan,“ segir hann bjartsýnn en kveðst líka aðeins hafa snúið sér að því að semja dansverk. Næst á dagskránni er verk fyrir flokkinn í Mannheim. „Það er dálítið stór kökubiti. Sviðið er eitt það stærsta sem ég hef komið á, um 20 metra breitt, þannig að þetta er mikil áskorun. Ég verð að sýna líka í Basel á sama tíma. Það er tveggja tíma akstur þarna á milli og ég mun nýta tímann í lestinni til að horfa á vídeó af æfingum. Svo verður gott að geta hringt í mömmu og fengið ráð. Það hefur oft verið gert og verður áfram.“ „Frank hefur verið það heppinn að hann hefur fengið stór tækifæri, verandi svona ungur, bara 26 ára, svo þroski hans hefur verið hraður. Hæfileikar og mikil vinna hafa vafalaust einnig átt þar stóran þátt,“ segir móðir hans. En dansa þau mæðginin stundum saman? Frank kímir. „Yfirleitt þegar við erum á æfingum saman segir mamma: „Ekki lyfta mér, ekki lyfta mér,“ en svo lyfti ég henni og við erum bæði á lífi!“ „Já, maður er nú ekki alveg eins léttur og í gamla daga en hann er ofboðslega góður og sterkur partner og ég nýt góðs af því,“ segir Katrín brosandi. „Margir danshöfundar hafa aðstoðarmenn, ég hef sjaldan nýtt mér það en stundum getað fengið strákinn minn til að hjálpa mér, þegar ég hef verið að vinna í borgum nálægt honum. Hann er afburðadansari, þekkir vel minn stíl og getur sýnt 100% það sem ég vil ná fram. Það getur verið snúið fyrir danshöfund að vera einn, þá þarf hann að gera allt í einu, tala, sýna og horfa. En ég verð auðvitað líka að hafa ákveðna hreyfigetu sjálf til að geta leiðbeint með líkamanum og reyni að hugsa vel um heilsuna. Því eldri sem maður verður er meiri vinna að halda sér í formi. Ég fór nú í hnjáaðgerð um síðustu jól því brjóskið þar er eytt, gat varla gengið en var samt að semja, enda með frekar háan sársaukaþröskuld.“ „Já, við erum beintengd við Örnólf Valdimarsson bæklunarlækni,“ segir Frank brosandi. „Það er ómetanlegt að hafa aðgang að lækni sem þekkir það sem við erum að fást við. Ég hef farið til læknis sem hefur sagt: „Ja, ég mundi nú bara hvíla mig í svona tvo mánuði,“ þegar ég hef tvo tíma max. Örnólfur getur brugðist hratt við en samt haft vit fyrir manni og komið manni niður á jörðina í væntingum.“ Ætlar Frank kannski að verða nýr Helgi Tómasson sem er enn að, á áttræðisaldri? „Að halda áfram sem danshöfundur og stjórnandi? Ég hugsa að ég væri alveg til í það. En ég veit ekkert. Kannski vakna ég einhvern daginn og langar að prófa eitthvað allt annað. Pabbi var mikill leikhúsmaður en allt í einu sneri hann sér að eldamennsku. Það er gott að hafa svona fyrirmyndir eins og foreldra mína, mömmu sem heldur áfram í sínu af brennandi áhuga og pabba sem svissar yfir í allt annað. Það sýnir mér að allt er mögulegt og bara gaman að sjá hvert lífið leiðir mann.“ Katrín viðurkennir að hún sé með fullkomnunaráráttu sem Frank Fannar hafi erft og dóttirin að hluta til líka, þó hún hafi sem betur fer líka fengið ögn af kæruleysi úr hinni áttinni. „Þessi fjölskylda hefur getað fúnkerað af því að maðurinn minn getur verið kærulaus, hann vegur upp á móti okkur Frank sem þurfum alltaf að hafa skýra mynd af því sem er að fara að gerast. „Þetta reddast,“ er hins vegar hugsun sem Guðjón hefur tileinkað sér og ég met hann og virði fyrir að hann skuli vera tilbúinn til að fylgja mér til Gautaborgar, það var ekkert sjálfgefið. Þetta hefur svolítið einkennt okkar samband að gefa hvort öðru pláss, störfin hafa alltaf skipt okkur miklu máli og það er gagnkvæmur skilningur á því.“ „En það hefur oft verið dansað á Suðurgötunni. Heilu dansverkin hafa orðið til þar, ekki síst á áramótum.“ Vísir/EyþórAlltaf að kveðja Frank segir það neikvæðasta við listalífið vera eilíft flakk, alltaf sé verið að kveðja og mikið hangið á flugvöllum. Móðir hans tekur undir það. „Við erum búin að lifa dálítið oft við fjarveru einhvers í fjölskyldunni, það getur verið lýjandi. Ég ferðast mikið og fyrstu árin mín sem dansari bjuggum við maðurinn minn ekki saman, ég bjó í Köln og flakkaði þaðan um. Frank Fannar var fæddur og ég hafði sex au-pair stúlkur á mismunandi tímum, allar dásamlegar. Maður fórnar ákveðnum öðrum þáttum við að helga sig þessu lífi." Þótt starfssvið fjölskyldunnar verði erlendis næstu ár fullyrða þau Katrín og Frank að þau muni koma til Íslands öðru hvoru. „Maður missir ekkert tengslin við sitt land. Hér eigum við svo sterkar rætur,“ segir Katrín fastmælt. Þessu er Frank sammála. „Ég nota íslenska tónlist við nýja dansverkið sem ég er að semja, tónlist eftir Sigur Rós, Jóhann Jóhannsson og fleiri. Það kemur einhver heimatilfinning yfir mig við það. Íslensk náttúra virkar þannig á mig líka.“ Katrín er sama sinnis. „Náttúra Íslands veitir endalausan innblástur. Þar er svo margt sem hefur áhrif á mig og ég nýti beint og óbeint í minni sköpun. Það hefur líka haft áhrif á mig að búa í svona litlu samfélagi þar sem allir skipta máli og hafa rödd og þýðingu. Í stærri samfélögum er hver einstaklingur ekki eins sterkur.“ Frank hendir þetta á lofti. „Það er tekið eftir því úti í heimi hvað Íslendingar skara víða fram úr. Við eigum að vera stolt af sérkennum okkar og hafa trú á þeim. Megum ekki verða of glóbalíseruð. Mér finnst til dæmis dapurlegt að horfa upp á miðborgina okkar breytast stöðugt og missa karakterinn. Því tek ég eftir þegar ég kem heim með vissu millibili og alltaf fjölgar hótelum og túristabúðum.“ En fara þau Katrín og Frank aldrei út á djammið að dansa eins og venjulegt fólk? „Nei,“ svarar Frank kíminn. „En það hefur oft verið dansað á Suðurgötunni. Heilu dansverkin hafa orðið til þar, ekki síst á áramótum! Ég hef eflaust djammað minna og án efa dansað meira en margir jafnaldrar mínir. Sjáum svo til hvort dansað verði á áramótunum í Gautaborg.“Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. ágúst 2016 Lífið Mest lesið Hvað eru konur í framboði að hlusta á? Lífið Hraðfréttir verða Hlaðfréttir Lífið Krakkatían: Eyðimerkur, býflugur og kjólar Lífið Sjáðu Nínu Dögg sem Vigdísi í fyrstu stiklunni Bíó og sjónvarp Eins og að setja bensín á díselbíl Heilsa Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið Óhugnanlegt neyðarlínusímtal: „Hann var bara dáinn“ Lífið Frumsýning á Vísi: Steindi og Saga rifja upp gamla takta í Draumahöllinni Bíó og sjónvarp Vilt þú taka þátt í nýjum þætti á Stöð 2? Lífið Khalid kemur út úr skápnum Lífið Fleiri fréttir Hvað eru konur í framboði að hlusta á? Krakkatían: Eyðimerkur, býflugur og kjólar Hraðfréttir verða Hlaðfréttir Khalid kemur út úr skápnum Skautasvellið opnað í tíunda sinn Sykurlausar og dísætar smákökur Flaug alla leið frá Ástralíu til að heimsækja Eiðistorg Fréttatían: Gömul mannshvörf, rukkanir og gos Vængir, bjór og lófaklapp þegar Kaninn var forsýndur Kendrick Lamar gefur út óvænta plötu „Þetta var það erfitt, að við vorum öll dofin“ Lúxusíbúð við Heiðmörk með stórbrotnu útsýni Jay Leno illa leikinn og með lepp Óhugnanlegt neyðarlínusímtal: „Hann var bara dáinn“ Hrund Gunnsteins kaupir íbúð Viktors Bjarka og Álfrúnar Vilt þú taka þátt í nýjum þætti á Stöð 2? „Þú varst að tala um Klausturmálið!“ Datt í miðri sýningu á Ellý: „Eitt lélegasta fall leikhússögunnar“ Sigraði í alþjóðlegri kokteilakeppni á Kýpur Mikill sigur að geta opnað aftur í Kringlunni Átta ár án áfengis og fíkniefna Flytja frá Bandaríkjunum eftir sigur Trump Svava Rós og Hinrik eiga von á dreng Davíð Lúther og Linda selja sælureitinn með gullfiskum „Laugarnesið hafði mjög mikil áhrif á mig í uppvexti“ Heitasti partýljósmyndari Reykjavíkur stefnir langt Dularfull tíst Dylans vekja furðu Eldræða Sölku Sólar í ráðhúsinu Flotinn og amma Andrea hlutu viðurkenningu Barnaheilla Myndir: Þungt yfir stjörnunum við jarðarför Payne Sjá meira
Þau eru í óðaönn að flokka og pakka öllum eigum sínum niður og tæma húsið, mæðginin Katrín Hall og Frank Fannar, því fjölskyldan er öll að flytja af landinu. Hann hefur reyndar verið dansandi suður í Evrópu síðustu átta ár, fyrst á Spáni, svo í Þýskalandi, nú í Sviss en heimili hans hefur þó verið við Suðurgötuna hjá foreldrum og systur. Nú eru þau á förum til Svíþjóðar. Það gerir dansinn. Katrín er að taka við listrænni stjórn hjá einum virtasta nútímadansflokki Evrópu, í Gautaborg. Guðjón Pedersen, fyrrverandi leikhússtjóri, maður hennar, og dóttirin Matthea Lára, 16 ára, fylgja henni. „Maður þarf að fara í gegnum ansi margt. Það er heljar mál að koma heilli fjölskyldu út og tæma hús sem maður hefur búið í lengi,“ viðurkennir Katrín. „Ég hafði það sem forgangsverkefni að finna góðan skóla fyrir Mattheu Láru og tókst að finna alþjóðlegan menntaskóla sem vel er látið af. Hún byrjar þar 22. ágúst.“ Frank segir aðdáunarvert hvað systir hans hafi tekið þessum breytingum á þroskaðan hátt, sextán ára og að flytja frá öllum vinunum. Minnist þess þegar hann hélt út í heim í dansnámið. „Ég var þó búinn með menntaskólann og fór af eigin hvötum, var líka að fara í mitt uppáhald – en ég var reyndar einn.“ Þetta kallar á erfiða upprifjun hjá Katrínu. „Hann byrjaði í Barcelona. Við foreldrarnir vorum með honum þar nokkra daga að finna íbúð og klára ýmsa praktíska hluti en þegar við skildum hann eftir, 18 ára, í þessari risastóru borg þá leið okkur skringilega og kveðjustundin var dramatísk.“ „Þetta var líka svolítið erfið borg að byrja í, aðallega töluð spænska og katalónska,“ segir Frank. „En ég var í mjög virtum flokki fyrir unga dansara svo það var góður stökkpallur út í lífið og atvinnumennskuna. Ég var að vinna með mjög færum danshöfundum, hvað yngstur þeirra sem komu erlendis frá. Hélt aldrei að ég mundi komast inn.“ „Svo kom í ljós að hann þurfti að velja,“ upplýsir móðir hans. „Hann var að hugsa um að fara í skóla í Rotterdam dansakademíunni og komst þar inn. Ég var að setja upp verk í Graz í Austurríki og fékk hann með mér þangað í nokkra daga áður en hann fór til Barcelona í inntökuprófið, þá var honum boðinn samningur þar. Svo komst hann líka inn í Barcelona.“ Frank tekur undir þá ályktun mína að hann hafi verið þokkalegur en kveðst ekki hafa hugsað þannig á þeim tíma. Móðir hans útskýrir hvers vegna „Manni finnst maður aldrei nógu góður í þessu fagi. Aldrei fullnuma, alltaf að læra og þroskast og finna nýjar leiðir, dansinn er í eðli sínu þannig listgrein.“ Þessu er Frank sammála. „Þegar manni finnst maður orðinn nógu góður á maður að hætta því þá er leitinni hætt.“Ljósmóðirin dró hana í dansinn Þó Frank sé Íslendingur inn að beini hefur hann dvalið lengur erlendis en á Íslandi á sinni ævi. Var í Köln í Þýskalandi fyrstu sex árin þar sem mamma hans starfaði á þeim tíma. Fór svo út í heim átján ára, eins og fram er komið, var í dansflokknum í Wiesbaden í þrjú ár og er nú fastráðinn í Basel í Sviss að minnsta kosti ár í viðbót. Það er ekki erfitt að giska á af hverju hann byrjaði að dansa, verandi sonur Katrínar Hall, dansara og stjórnanda Íslenska dansflokksins um árabil. En hvernig kynntist hún dansinum? „Ég fór með vinkonum í dans sem barn eins og gjarnan gerist og þar varð ég fyrir áhrifum. Svo skráði hún amma mín, Katrín Hall ljósmóðir, mig í inntökupróf í Listdansskóla Þjóðleikhússins og dró mig þangað svo það er fyrir hennar tilverknað að ég er það sem ég er. Ég byrjaði snemma í dansflokknum og var samhliða í MR. Það var strembið en Guðni rektor var menningarlega sinnaður og sá að það var einhver alvara í þessu hjá mér svo ég var með frjálsa mætingu í 5. bekk og utanskóla í 6. bekk. Ég skil ekki alveg hvernig það gekk upp. Held ég hafi líka fengið upp í kok af bóknámi svo dansinn tók yfir. Það að gera dansinn að atvinnu var eitthvað sem ég gat varla ímyndað mér að gæti gerst og var ekki endilega langþráður draumur heldur meira bara eðlileg framvinda.“ Frank horfir brosandi á móður sína. „Mér finnst fyndið að heyra þig lýsa þessu því þú gætir verið að tala fyrir okkur bæði,“ segir hann. „Ég var með frjálsa mætingu í menntó og utanskóla síðasta árið.“ Þegar að er gáð lauk Frank menntaskólanámi á styttri tíma en algengt er. „Ég þurfti að drífa mig. Það er stundum þannig þegar tækifærin koma. En ég segi eins og mamma, ég skil ekki hvernig mér tókst að ljúka prófum. Í dag lifi ég lúxuslífi, bara að vinna vinnuna mína!“ Katrín bendir á að krakkar sem velja sér feril í listum og íþróttum verði að vera skipulögð og öguð og það fylgi þeim út í lífið.Katrín viðurkennir að hún sé með fullkomnunaráráttu sem Frank Fannar hafi erft.Bæði með hnjávandamál Bæði unnu Katrín og Frank við annað en dans á námsárunum. Katrín til dæmis í tískubúðinni Evu galleríi og Sjóvá og vann sér fyrir krefjandi dansnámskeiðum í New York, Dresden og Köln. Frank kveðst hafa sumarvinnu á Subway á ferilskránni og þjónsstarf á Óðinsvéum „hjá Sigga frænda“ en fannst æðislegast að vera í skapandi sumarstörfum hjá borginni að búa til sýningar niðri í bæ. „Það er hollt fyrir krakka að vinna fyrir hlutunum og fá ekki allt upp í hendurnar. Þau fá annað verðmætamat,“ segir Katrín. Frank kvartar ekki yfir kaupinu í Basel, kveðst þó halda að það sé lægra en hjá skúringafólkinu. „Dansararnir eru með þeim lægst launuðu í leikhúsinu þó við höfum átt farsælustu sýninguna á síðasta ári. Mest seldu. Það skilar sér ekki til okkar.“ Skyldu þau aldrei óttast að meiðast og eyðileggja atvinnutækið? „Það er allt í lagi þó ég meiðist, ég get stjórnað með hækju,“ segir Katrín glettnislega. Frank segir ekki gaman að dansa ef óttinn sé með í för, en sjaldgæft sé að dansarar detti og verði fyrir slysum, hitt sé algengt að þeir byrji hægt og rólega að finna einhvers staðar til. „Dansari lærir á líkama sinn, þekkir merkin og hugsar, ókei, nú þarf ég að passa aðeins betur upp á þetta svæði.“ Móðir hans tekur undir það. „Oft eru dansarar með króníska veikleika. Við Frank erum til dæmis bæði með hnjávandamál en vinnum okkur kringum þau og ef við þurfum í aðgerð þá förum við á sumrin til að vera klár í dansinn í ágúst! Álagið á líkamann er mikið og það eru gerðar æ meiri kröfur af hálfu danshöfunda.“ Frank grípur boltann. „Já, dansformið er alltaf að þenjast út, og oft þarf maður að takast á við ýmislegt annað en dans, vera opinn fyrir öllu og þora að fara út fyrir eigin þægindaramma.“ Yfir til danshöfundarins og listdansstjórans. „Einmitt. Stjórnendur rýna mikið í persónuleika hvers og eins dansara. Danstækni er auðvitað nauðsynleg en það skiptir líka máli hvernig dansarinn tengist áhorfendum og öðrum dönsurum og hvað hann hefur að gefa inn í flokkinn sem listamaður. Hefur jafnvel eigin hreyfiforða og spinnur með hann. Þetta er þróun sem ég tel áhugaverða því þannig er dansarinn virkur þátttakandi í sköpunarferlinu og það er gefandi og þroskandi. Svo verður hann líka að treysta danshöfundinum til að ögra sér og finna nýjar hliðar sem hann vissi kannski ekki um sjálfur.“ Katrín tók formlega við veldissprotanum í dansflokki Gautaborgaróperunnar í byrjun ágúst og er ráðin þar næstu fjögur ár með möguleika á eins árs framlengingu. Hún segir hið nýbyrjaða leikár hafa verið planað af forvera sínum. „Þessi bransi er þannig að allt er skipulagt svo langt fram í tímann að ég er meira að segja að verða of sein að skipuleggja þar næsta leikár. Ég þarf að bretta upp ermarnar hvað það varðar en er reyndar byrjuð á því samhliða öðru. Það er margt í gangi í kollinum á mér. Þetta er stór flokkur sem ég er að taka við og því hátt fjall að klífa en jafnframt ótrúlega ögrandi og spennandi verkefni. Sú reynsla að hafa stjórnað Íslenska dansflokknum í 15 ár og að hafa einnig starfað sjálfstætt sem höfundur mun án efa nýtast mér vel.“ Fjögur mismunandi dansverk bíða Franks í Basel, þar af tvö eftir sænska höfunda. „Þetta eru ólík verkefni svo það er spennandi leikár framundan,“ segir hann bjartsýnn en kveðst líka aðeins hafa snúið sér að því að semja dansverk. Næst á dagskránni er verk fyrir flokkinn í Mannheim. „Það er dálítið stór kökubiti. Sviðið er eitt það stærsta sem ég hef komið á, um 20 metra breitt, þannig að þetta er mikil áskorun. Ég verð að sýna líka í Basel á sama tíma. Það er tveggja tíma akstur þarna á milli og ég mun nýta tímann í lestinni til að horfa á vídeó af æfingum. Svo verður gott að geta hringt í mömmu og fengið ráð. Það hefur oft verið gert og verður áfram.“ „Frank hefur verið það heppinn að hann hefur fengið stór tækifæri, verandi svona ungur, bara 26 ára, svo þroski hans hefur verið hraður. Hæfileikar og mikil vinna hafa vafalaust einnig átt þar stóran þátt,“ segir móðir hans. En dansa þau mæðginin stundum saman? Frank kímir. „Yfirleitt þegar við erum á æfingum saman segir mamma: „Ekki lyfta mér, ekki lyfta mér,“ en svo lyfti ég henni og við erum bæði á lífi!“ „Já, maður er nú ekki alveg eins léttur og í gamla daga en hann er ofboðslega góður og sterkur partner og ég nýt góðs af því,“ segir Katrín brosandi. „Margir danshöfundar hafa aðstoðarmenn, ég hef sjaldan nýtt mér það en stundum getað fengið strákinn minn til að hjálpa mér, þegar ég hef verið að vinna í borgum nálægt honum. Hann er afburðadansari, þekkir vel minn stíl og getur sýnt 100% það sem ég vil ná fram. Það getur verið snúið fyrir danshöfund að vera einn, þá þarf hann að gera allt í einu, tala, sýna og horfa. En ég verð auðvitað líka að hafa ákveðna hreyfigetu sjálf til að geta leiðbeint með líkamanum og reyni að hugsa vel um heilsuna. Því eldri sem maður verður er meiri vinna að halda sér í formi. Ég fór nú í hnjáaðgerð um síðustu jól því brjóskið þar er eytt, gat varla gengið en var samt að semja, enda með frekar háan sársaukaþröskuld.“ „Já, við erum beintengd við Örnólf Valdimarsson bæklunarlækni,“ segir Frank brosandi. „Það er ómetanlegt að hafa aðgang að lækni sem þekkir það sem við erum að fást við. Ég hef farið til læknis sem hefur sagt: „Ja, ég mundi nú bara hvíla mig í svona tvo mánuði,“ þegar ég hef tvo tíma max. Örnólfur getur brugðist hratt við en samt haft vit fyrir manni og komið manni niður á jörðina í væntingum.“ Ætlar Frank kannski að verða nýr Helgi Tómasson sem er enn að, á áttræðisaldri? „Að halda áfram sem danshöfundur og stjórnandi? Ég hugsa að ég væri alveg til í það. En ég veit ekkert. Kannski vakna ég einhvern daginn og langar að prófa eitthvað allt annað. Pabbi var mikill leikhúsmaður en allt í einu sneri hann sér að eldamennsku. Það er gott að hafa svona fyrirmyndir eins og foreldra mína, mömmu sem heldur áfram í sínu af brennandi áhuga og pabba sem svissar yfir í allt annað. Það sýnir mér að allt er mögulegt og bara gaman að sjá hvert lífið leiðir mann.“ Katrín viðurkennir að hún sé með fullkomnunaráráttu sem Frank Fannar hafi erft og dóttirin að hluta til líka, þó hún hafi sem betur fer líka fengið ögn af kæruleysi úr hinni áttinni. „Þessi fjölskylda hefur getað fúnkerað af því að maðurinn minn getur verið kærulaus, hann vegur upp á móti okkur Frank sem þurfum alltaf að hafa skýra mynd af því sem er að fara að gerast. „Þetta reddast,“ er hins vegar hugsun sem Guðjón hefur tileinkað sér og ég met hann og virði fyrir að hann skuli vera tilbúinn til að fylgja mér til Gautaborgar, það var ekkert sjálfgefið. Þetta hefur svolítið einkennt okkar samband að gefa hvort öðru pláss, störfin hafa alltaf skipt okkur miklu máli og það er gagnkvæmur skilningur á því.“ „En það hefur oft verið dansað á Suðurgötunni. Heilu dansverkin hafa orðið til þar, ekki síst á áramótum.“ Vísir/EyþórAlltaf að kveðja Frank segir það neikvæðasta við listalífið vera eilíft flakk, alltaf sé verið að kveðja og mikið hangið á flugvöllum. Móðir hans tekur undir það. „Við erum búin að lifa dálítið oft við fjarveru einhvers í fjölskyldunni, það getur verið lýjandi. Ég ferðast mikið og fyrstu árin mín sem dansari bjuggum við maðurinn minn ekki saman, ég bjó í Köln og flakkaði þaðan um. Frank Fannar var fæddur og ég hafði sex au-pair stúlkur á mismunandi tímum, allar dásamlegar. Maður fórnar ákveðnum öðrum þáttum við að helga sig þessu lífi." Þótt starfssvið fjölskyldunnar verði erlendis næstu ár fullyrða þau Katrín og Frank að þau muni koma til Íslands öðru hvoru. „Maður missir ekkert tengslin við sitt land. Hér eigum við svo sterkar rætur,“ segir Katrín fastmælt. Þessu er Frank sammála. „Ég nota íslenska tónlist við nýja dansverkið sem ég er að semja, tónlist eftir Sigur Rós, Jóhann Jóhannsson og fleiri. Það kemur einhver heimatilfinning yfir mig við það. Íslensk náttúra virkar þannig á mig líka.“ Katrín er sama sinnis. „Náttúra Íslands veitir endalausan innblástur. Þar er svo margt sem hefur áhrif á mig og ég nýti beint og óbeint í minni sköpun. Það hefur líka haft áhrif á mig að búa í svona litlu samfélagi þar sem allir skipta máli og hafa rödd og þýðingu. Í stærri samfélögum er hver einstaklingur ekki eins sterkur.“ Frank hendir þetta á lofti. „Það er tekið eftir því úti í heimi hvað Íslendingar skara víða fram úr. Við eigum að vera stolt af sérkennum okkar og hafa trú á þeim. Megum ekki verða of glóbalíseruð. Mér finnst til dæmis dapurlegt að horfa upp á miðborgina okkar breytast stöðugt og missa karakterinn. Því tek ég eftir þegar ég kem heim með vissu millibili og alltaf fjölgar hótelum og túristabúðum.“ En fara þau Katrín og Frank aldrei út á djammið að dansa eins og venjulegt fólk? „Nei,“ svarar Frank kíminn. „En það hefur oft verið dansað á Suðurgötunni. Heilu dansverkin hafa orðið til þar, ekki síst á áramótum! Ég hef eflaust djammað minna og án efa dansað meira en margir jafnaldrar mínir. Sjáum svo til hvort dansað verði á áramótunum í Gautaborg.“Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. ágúst 2016
Lífið Mest lesið Hvað eru konur í framboði að hlusta á? Lífið Hraðfréttir verða Hlaðfréttir Lífið Krakkatían: Eyðimerkur, býflugur og kjólar Lífið Sjáðu Nínu Dögg sem Vigdísi í fyrstu stiklunni Bíó og sjónvarp Eins og að setja bensín á díselbíl Heilsa Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið Óhugnanlegt neyðarlínusímtal: „Hann var bara dáinn“ Lífið Frumsýning á Vísi: Steindi og Saga rifja upp gamla takta í Draumahöllinni Bíó og sjónvarp Vilt þú taka þátt í nýjum þætti á Stöð 2? Lífið Khalid kemur út úr skápnum Lífið Fleiri fréttir Hvað eru konur í framboði að hlusta á? Krakkatían: Eyðimerkur, býflugur og kjólar Hraðfréttir verða Hlaðfréttir Khalid kemur út úr skápnum Skautasvellið opnað í tíunda sinn Sykurlausar og dísætar smákökur Flaug alla leið frá Ástralíu til að heimsækja Eiðistorg Fréttatían: Gömul mannshvörf, rukkanir og gos Vængir, bjór og lófaklapp þegar Kaninn var forsýndur Kendrick Lamar gefur út óvænta plötu „Þetta var það erfitt, að við vorum öll dofin“ Lúxusíbúð við Heiðmörk með stórbrotnu útsýni Jay Leno illa leikinn og með lepp Óhugnanlegt neyðarlínusímtal: „Hann var bara dáinn“ Hrund Gunnsteins kaupir íbúð Viktors Bjarka og Álfrúnar Vilt þú taka þátt í nýjum þætti á Stöð 2? „Þú varst að tala um Klausturmálið!“ Datt í miðri sýningu á Ellý: „Eitt lélegasta fall leikhússögunnar“ Sigraði í alþjóðlegri kokteilakeppni á Kýpur Mikill sigur að geta opnað aftur í Kringlunni Átta ár án áfengis og fíkniefna Flytja frá Bandaríkjunum eftir sigur Trump Svava Rós og Hinrik eiga von á dreng Davíð Lúther og Linda selja sælureitinn með gullfiskum „Laugarnesið hafði mjög mikil áhrif á mig í uppvexti“ Heitasti partýljósmyndari Reykjavíkur stefnir langt Dularfull tíst Dylans vekja furðu Eldræða Sölku Sólar í ráðhúsinu Flotinn og amma Andrea hlutu viðurkenningu Barnaheilla Myndir: Þungt yfir stjörnunum við jarðarför Payne Sjá meira