Mótmælendur skutu af byssum, köstuðu múrsteinum og kveiktu í bensínstöð í Milwaukee í Wisconsin í Bandaríkjunum í gærkvöldi, aðeins klukkustundum eftir að lögreglumaður skaut vopnaðan vegfaranda til bana í borginni.
Hörundslitur mannsins sem lögreglan skaut hefur ekki verið gefinn upp en atvikið átti sér stað í hverfi í borginni þar sem meirihluti íbúa er svartur.
Samkvæmt yfirvöldum var maðurinn 23 ára og hefur oft hlotið refsidóm. Lögreglan stöðvaði hann vegna gruns um umferðarlagabrot en hann var með skammbyssu á sér og flúði af vettvangi. Þá skaut lögreglumaðurinn með þeim afleiðingum að maðurinn dó.
Í frétt Guardian um málið segir að í yfirlýsingu lögregluyfirvalda í Milwaukee komi ekkert fram um það hvort að maðurinn hafi skotið í átt að lögreglumönnunum eða miðað byssunni að þeim.
Talið er að hátt í 100 manns hafi mótmælt í Milwaukee í gær. Mótmælin eru þau síðustu í röð sambærilegra mótmæla í Bandaríkjunum vegna lögregluofbeldis.
Fyrstu mótmælin brutust út haustið 2014 í borginni Ferguson í Missouri eftir að hvítur lögreglumaður skaut svartan ungan mann, Michael Brown, til bana. Síðan hafa svipuð mál komið upp víðs vegar um Bandaríkin með tilheyrandi reiði almennings, meðal annars í Baltimore og New York.
Mótmæli í Milwaukee eftir að lögreglumaður skaut vegfaranda til bana
Tengdar fréttir

Ljósmynd af handtöku þeldökkrar konu í Baton Rouge lýst sem goðsagnakenndri
Fjöldi fólks hefur deilt myndinni á samfélagsmiðlum en ljósmyndari, Jonathan Bachman, sem tók myndina fyrir Reuters segir að hann sé fullur auðmýktar yfir því að hafa tekið mynd sem fangi svo vel það sem sé að gerast í Baton Rouge.

Obama segir árásina í Baton Rouge huglausa
Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóð sína eftir að þrír lögreglumenn voru myrtir í dag. Donald Trump segir Bandaríkin stjórnlaus og tvístruð.

Árásarmaðurinn í Baton Rouge hafði hvatt svarta til að svara ofbeldi lögreglumanna
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur kallað eftir því að Bandaríkjamenn standi saman og halda sig frá umræðu sem getur valdið sundurlyndi.