Fótbolti

Mario Gomez flýr Tyrkland vegna ástandsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Gomez.
Mario Gomez. Vísir/Getty
Þýski landsliðsframherjinn Mario Gomez hefur spilað sinn síðasta leik fyrir tyrkneska félagið Besiktas en ástæðan er ótryggt ástand í landinu eftir valdaránstilraunina á dögunum.

Mario Gomez lék með þýska landsliðinu á EM í Frakklandi og með því að skora tvö mörk í keppninni varð hann markahæsti leikmaður Þjóðverja í úrslitakeppni Evrópumótsins.

Mario Gomez átti mjög gott tímabil með Besiktas á síðustu leiktíð þar sem hann skorað 28 mörk í 41 leik. Besiktas fékk Gomez á láni frá Fiorentina og hann hjálpaði liðinu að vinna tyrkneska meistaratitilinn.

Mario Gomez hefur nú gefið það út að hann spili ekki áfram með Besiktas-liðinu vegna óvissuástandsins í Tyrklandi. BBC segir frá.

Gomez notaði Fésbókina til að segja frá ákvörðun sinni og tók þar sérstaklega fram að það væru engar íþróttalegar ástæður fyrir því að hann vilji ekki spila í Tyrklandi.

„Þetta var erfið ákvörðun sem ég þurfti að hugsa mikið um. Ég verð að segja stuðningsmönnum Besiktas að það sé mér þungbært að geta ekki spilað áfram fyrir þetta frábæran klúbb, fyrir framan þessa yndislegu stuðningsmenn og í þessum einstaka leikvangi," skrifaði Gomez.  

„Þetta snýst eingöngu um þá skelfilegu atburði sem gerðust síðustu daga. Ég vona að þið getið skilið það. Að baki er stórkostlegt ár þar sem meistaratitilinn var hápunkturinn. Ég vonast jafnframt til þess að þessi pólitísku vandamál munu leysast fljótt á friðsælan hátt," skrifaði Gomez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×