Íslenski boltinn

Túfa valinn bestur: Ég er með mikinn metnað fyrir þessu starfi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Srdjan Tufegdzic, betur þekktur sem Túfa, þjálfari KA, var í dag verðlaunaður sem besti þjálfari fyrri hluta Inkasso-deildarinnar en þetta er val íþróttadeildar 365 og Inkasso sem er styrktaraðili deildarinnar.

Srdjan Tufegdzic tók við KA-liðinu í fyrra þegar ljóst var að Akureyrarliðið væri ekki á leið upp og Bjarni Jóhannsson var rekinn. Hann fór á mikinn skrið með KA og var á endanum ekki langt frá því að koma liðinu upp.

Tufegdzic er síðan á góðri leið með að koma KA-liðinu upp í Pepsi-deildina í sumar en liðið hefur fimm stiga forskot á toppnum þegar tólf umferðir eru búnar. Tufegdzic og félagar héldu upp á verðlaunin með því að vinna Fram í Laugardalnum í kvöld.

„Það kemur okkur ekki á óvart að við séum í efsta sætinu. Þetta hefur verið markmiðið okkar frá upphafi og við viljum halda okkur þarna áfram," sagði Srdjan Tufegdzic í samtali við Tómas Þór Þórðarson í kvöld.

„Ég er með mikinn metnað fyrir þessu starfi sem ég er í núna og mig langar að liðið mitt nái þessu fyrsta sæti. Ef það tekst þá eru það nógu mikil verðlaun fyrir mig," sagði Tufegdzic.

„Þetta var góð fyrri umferð hjá okkur og þá sérstaklega í varnarleiknum því vorum skipulagðir og að gefa lítil færi á okkur. Við héldum hreinu í sjö leikjum af ellefu sem er mjög sterkt," sagði Tufegdzic.

„Leikur okkar hefur verið stígandi í allt sumar og ég tel að við eigum ennþá eitthvað inni. Við ætlum okkur að spila ennþá betur í seinni umferðinni," sagði Tufegdzic.

Það er hægt að hlusta á allt viðtalið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×