Óhjákvæmilegt er að bæta við þingfundardögum í haust til að klára öll mál ríkisstjórnarinnar. Þetta segir formaður Framsóknarflokksins. Samkomulag um að flýta kosningum hafi verið viðleitni til að ná saman við stjórnarandstöðuna en vantrauststillaga hennar hefði haft áhrif á þau áform.
Sjálfstæðismenn áhugasamir um kosningar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sendi bréf til flokksmanna í gær þar sem fram kemur að hann muni á næstunni hefja fulla þátttöku í stjórnmálabaráttunni. Þá tjáir Sigmundur sig einnig um boðaðar alþingiskosningar í haust en í bréfinu segir:
„Einhverra hluta vegna hefur hluti samstarfsmanna okkar í Sjálfstæðisflokknum verið áhugasamur um að flýta alþingiskosningum.”
Það hafa þó fleiri en sjálfstæðismenn talað í þá veru að flýta kosningum en Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, var spurður um málið á Alþingi 28. apríl síðastliðinn af Ástu Guðrúnu Helgadóttur, þingmanni Pírata.
„Ætlar forsætisráðherra hæstvirtur að boða til kosninga í haust,“ spurði Ásta Guðrún.
Og svar Sigurður Inga var eftirfarandi:
„Virðulegur forseti. Stutta svarið er náttúrulega já, eins og fram hefur komið í mörgum samtölum og samræðum hér bæði við minnihlutann og í yfirlýsingum forystumanna flokkanna,“ sagði Sigurður Ingi.
„Fullkomlega skýrt“
Er þetta ekki afskaplega skýrt Sigmundur. Að það verði boðað til alþingiskosninga í haust?
„Það er bara mjög skýrt og fullkomlega skýrt, vegna þess að ég tók þátt í þessu á sínum tíma þegar að verið var að ganga frá þessu, að þetta væri háð því að við kláruðum fyrst þessi mál sem við ætluðum okkur að klára. Í því felst hugmyndin. Til hvers að bjóða upp á það að flýta kosningum ef að það á ekkert að koma á móti. Hugmyndin væri að með því væri verið að koma til móts við stjórnarandstöðuna meðal annars, ef að hún þá féllist á að vinna þetta með okkur,“ segir Sigmundur Davíð.
Þetta hefði því verið viðleitni til að ná saman við stjórnarandstöðuna um að láta málin ganga hratt fyrir sig.
„Það næsta sem gerðist hins vegar var að það var lýst yfir vantrausti á ríkisstjórnina. Menn héldu sig við það. Sú tillaga var felld.“
Hafði þessi vantrauststillaga áhrif á þessi áform ykkar (að flýta kosningum, innsk. blm.)?
„Já, það segir sig eiginlega sjálft þegar að stjórnarandstaðan hélt sig við að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórnina, þá var hún ekki á því að semja um að menn afgreiddu málin,“ segir Sigmundur.
Á starfsáætlun Alþingis er gert ráð fyrir 12 þingfundardögum í ágúst og september áður en þingi verður frestað þann 2. september.
Óhjákvæmilegt að fjölga þingfundardögum
Telur þú raunhæft að klára þessi mál á þessum tíma?
„Ég held að það sé orðið ljóst og hljóti að vera óhjákvæmilegt að það þurfi að bæta þarna við einhverjum tíma. Kannski talsverðum tíma. En sá tími sem er til stefnu, það er að segja þeir mánuðir sem enn eru fram að kosningum á tilsettum tíma, hann er nægur. Svo er bara spurning hvort og hversu vel mönnum tekst að flýta þessu starfi, langi menn að flýta kosningum,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Svíþjóð
Ísland