Innlent

Nokkuð um leyfislausa í akstri með ferðamenn á Suðurlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Anton
Lögreglan á Suðurlandi sektaði sex aðila fyrir að stunda akstur með farþega án gildra hópferða- og rekstrarleyfa. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að svo virðist sem að „nokkuð vanti uppá að þeir sem stundi akstur með farþega hafi gild hópferða- og rekstrarleyfi eða ökumenn með ökurita í lagi.“

Lögreglan hafði afskipti af rútubílstjóra við Seljalanddsfoss á laugardaginn. Sá var með farþega á vegum rússneskrar ferðaskrifstofu. Sjálfur var bílstjórinn rússneskur en ekkert rekstrarleyfi var til staðar og ekki var ökuritarskífa í ökurita rútunnar.

Þar að auki var maðurinn ekki með ökuréttindi til aksturs í atvinnuskyni á Íslandi.

Hann féllst á að greiða lögreglustjórasátt sem fólst í 65 þúsund króna sekt og var hann frjáls ferða sinna.

Þá var ökumaður staðinn að því við Gullfoss að aka erlendum ferðamönnum í leigubíl í atvinnuskyni án réttinda. Auk þess hafði maðurinn ekki fullgild ökuréttindi til aksturs leigubíls.

Lögreglan stöðvaði einnig tékkneska ferðamenn á þjóðveginum  í Eldhrauni. Þeir sögðust hafa tekið bílinn á leigu á netinu, en voru ekki með leigusamning og bíllinn var ekki skráður sem bílaleigubíll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×