Körfubolti

Háskólaleikmaður besti íþróttamaður Bandaríkjanna í flokki kvenna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Breanna Stewart var besti íþróttamaður Bandaríkjanna í kvennaflokki á síðasta ári.
Breanna Stewart var besti íþróttamaður Bandaríkjanna í kvennaflokki á síðasta ári. vísir/getty
Það kom bersýnilega í ljós á ESPYS-verðlaununum í gær hversu mikla áherslu Bandaríkjamenn leggja á háskólaíþróttir þegar körfuboltakonan Breanna Stewart var kjörin besti íþróttamaður Bandaríkjanna í flokki kvenna fyrir lokaárið sitt með Connecticut-háskólaliðinu.

ESPYS-verðlaunin er árleg uppskeruhátíð bandarísks íþróttafólks en eins og nafnið gefur til kynna er það íþróttasjónvarpsstöðin ESPN sem heldur utan um verðlaunahátíðina.

Breanna Stewart er 21 árs gömul körfuboltakona sem er eitt allra mesta efni sem sést hefur vestanhafs. Hún vann háskólatitilinn með Connecticut öll fjögur árin sín í skólanum og var langbesti leikmaðurinn á lokaárinu.

Hún hlaut nafnbótina besti íþróttamaður kvenna í Bandaríkjunum á hátíðinni í Los Angeles í gær fyrir lokaárið sitt með Connecticut-skólanum. Hún var valin númer eitt í nýliðavalinu og á nú að baki ekki nema 20 leiki sem atvinnumaður í íþróttinni.

Stewart hafði betur í kjörinu gegn Elenu Delle Donne, bestu körfuboltakonu Bandaríkjanna í dag sem var útnefnd besti leikmaður WNBA í fyrra, og Ólympíuförunum Simone Biles og Katie Ledecky.  Ólympíufarin Ledecky vann fimm gull á HM í sundi í 50 metra laug í fyrra og Biles hefur orðið heimsmeistari í fimleikum undanfarin tvö ár.

Munurinn á besta karlinum og bestu konunni á ESPYS-verðlaununum í gær er mikill því besti íþróttamaðurinn í karlaflokki var kjörinn LeBron James. Hann á að baki þrettán tímabil í NBA-deildinni og þrjá meistaratitla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×