Við hækkunina verða allnokkrar breytingar á heildarlaunakjörum embættismanna og þjóðkjörinna fulltrúa sem undir ráðið heyra.
Forseti Íslands er launahæsti þjóðkjörni einstaklingurinn með tæpar 2,48 milljónir króna í mánaðarlaun. Á eftir honum er forsætisráðherra með 1,6 milljónir, eftir tæplega 109 þúsund króna hækkun, og svo forseti Alþingis og aðrir ráðherrar sem eru með 1,49 milljónir króna í laun.
Laun embættismanna sem ekki eru þjóðkjörnir breytast einnig. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, er enn launahæsti embættismaðurinn með nær 2,1 milljónar króna mánaðarlaun. Fast á hæla Herði kemur Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, með rúmar tvær milljónir. Í þriðja sæti er Már Guðmundsson seðlabankastjóri, mánaðarlaun Más nema ríflega 1,9 milljónum króna.

Um næstu mánaðamót taka svo gildi sérstakar breytingar kjararáðs á kjörum ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra stjórnarráðsins. Laun þeirra voru síðast ákvörðuð árið 2005 og því liggja ekki fyrir upplýsingar um núverandi kjör þeirra á vef kjararáðs en hækkunin nemur allt að 37 prósentum að sögn RÚV.
Eftir breytinguna verða heildarlaun ráðuneytisstjóranna hærri en laun ráðherra, eða rúmlega 1,8 milljónir króna á mánuði hjá ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins og yfir 1,7 milljónir hjá öðrum ráðuneytisstjórum. Laun skrifstofustjóra sem næst standa ráðuneytisstjóra fara í 1,3 milljónir. Aðrir skrifstofustjórar fá 1,2 milljónir.
Ákvörðun um almennu hækkunina var tekin í kjararáði 9. júní síðastliðinn af Jónasi Þór Guðmundssyni, Huldu Árnadóttur, Óskari Bergssyni, Svanhildi Kaaber og Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni.
Bent er á að í lögum um ráðið segi að það skuli taka mál til meðferðar þegar því þyki þurfa og ætíð ef orðið hafi verulegar breytingar á þeim launum í þjóðfélaginu sem höfð skulu til viðmiðunar samkvæmt lögunum eða á störfum þeirra sem úrskurðarvald þess tekur til.
Bent er á að í úrskurði gerðardóms hafi verið ákvæði um að laun aðildarfélaga í BHM ættu að hækka um 5,5 prósent frá 1. júní síðastliðnum, auk þess sem þar hafi verið kveðið á um 1,65 prósenta framlag til útfærslu menntunarákvæða úrskurðarins og eftir atvikum annarra þátta í stofnanasamningum.
