Mánuður er síðan undirbúningur fyrir innsetningu nýs forseta lýðveldisins hófst í forsætisráðuneytinu en Guðni Th. Jóhannesson nýkjörinn forseti verður settur inn í embætti við hátíðlega athöfn á Alþingi þann 1. ágúst næstkomandi.
Innsetningarathöfnin er mjög formföst og hefur verið eins í öllum meginatriðum frá árinu 1944 þegar Sveinn Björnsson var kjörinn forseti við stofnun íslenska lýðveldisins.
Athöfnin hefst með guðsþjónustu í Dómkirkjunni þar sem biskup þjónar fyrir altari en svo er yfirleitt annar prestur sem les predikun. Síðan færist athöfnin yfir í þingsal Alþingishússins þar sem sjálf innsetningin fer fram.
„Það þarf að taka út bekkina í þingsalnum þar sem þingmennirnir sitja. Það er nauðsynlegt vegna skipulags athafnarinnar og fjölda boðsgesta við innsetningarathöfnina“ segir Ágúst Geir Ágústsson skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu.
Fastir boðsgestir eru alls um 200 talsins og það er því þétt setið einnig í hliðarsölum þinghússins.
„Auk fastra boðsgesta, það er embættismanna, alþingismanna og annarra, á forseti á kost á að bjóða tilteknum fjölda gesta sem hann velur sjálfur. Nánustu fjölskyldu forsetans er auðvitað boðið og svo aðrir gestir sem hann tilnefnir,“ segir Ágúst.
Forseti getur sett mark sitt á athöfnina ef hann óskar eftir því varðandi tónlistaratriði sem bæði eru við athöfnina í þinginu og í guðsþjónustunni.
Forsætisráðuneytið hefur verkstjórn með undirbúningi athafnarinnar en allt er unnið í nánu samstarfi við skrifstofu Alþingis og skrifstofu embættis forseta Íslands og fleiri aðila, að sögn Ágústs. Undirbúningur er einnig hafinn á Bessastöðum þangað sem nýr forseti mun flytja með fjölskyldu sína.
