Erlent

David Cameron segir af sér

Gunnar Reynir Valþórsson og Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifa
David Cameron forsætisráðherra Bretlands ætlar að segja af sér í ljósi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
David Cameron forsætisráðherra Bretlands ætlar að segja af sér í ljósi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. vísir/afp
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, ætlar að segja af sér í ljósi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fór í gær þar sem Bretar ákváðu að segja sig úr Evrópusambandinu. Cameron sagði í yfirlýsingu nú fyrir stundu að hann muni hverfa úr embætti forsætisráðherra fyrir næsta flokksþing Íhaldsflokksins í október næstkomandi.

Cameron barðist fyrir áframhaldandi veru Breta í ESB og í ljósi niðurstöðunnar segist hann vera þeirrar skoðunar að annar forsætisráðherra þurfi að vera í brúnni þegar rætt verður við sambandið um næstu skref. Talið er líklegt að Boris Johnson, sem fór fyrir íhaldsmönnunum sem vildu fara úr ESB, taki við keflinu en það á þó eftir að koma í ljós.

„Breska þjóðin hefur tekið ákvörðun um að fara í aðra átt. Í ljósi þess held ég að þjóðin þurfi ferska forystu til þess að taka hana í áttina sem hún vill fara,“ sagði Cameron. Hann muni gera allt í hans valdi til þess að koma á jafnvægi á næstu vikum og mánuðum, en að ekki sé rétt að hann sjálfur sitji við stjórnvölinn.

„Þetta er ekki auðveld ákvörðun. En ég trúi því að það sé þjóðinni fyrir bestu að koma á stöðugleika og að ný forysta taki við í kjölfarið. Það er engin þörf á nákvæmri tímasetningu í dag en ég tel að nýr forsætisráðherra ætti að taka við á flokksþingi Íhaldsflokksins í október,“ sagði Cameron og bætti við að hann hefði greint Elísabetu Englandsdrottningu frá ákvörðun sinni í morgun.

Þá sagði Cameron breskan efnahag standa traustum fótum. „Ég vil fullvissa markaði um að breskur efnahagur er sterkur og ég vil einnig fullvissa Breta sem búa í aðildarríkjum Evrópusambandsins og evrópska ríkisborgara sem búsettir eru hér að það verða engar skyndilegar breytingar á aðstæðum ykkar,“ sagði Cameron. Nú þurfi að taka næstu skref sem séu að undirbúa viðræður við Evrópusambandið.

„Stjórnvöld í Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi þurfa að taka þátt til að ganga úr skugga um að hagsmuna allra hluta Bretlands verði gætt. En þetta krefst umfram allt sterkrar forystu.“

Cameron sagðist jafnframt virða ákvörðun bresku þjóðarinnar og hvatti aðra til að gera slíkt hið sama.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×