Innlent

Útlit fyrir að níu nöfn verði á kjörseðlinum

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Allt útlit er fyrir að þessir níu frambjóðendur verði á kjörseðlinum en frestur til þess að skila inn meðmælum rennur út að miðnætti.
Allt útlit er fyrir að þessir níu frambjóðendur verði á kjörseðlinum en frestur til þess að skila inn meðmælum rennur út að miðnætti. Vísir
Nú fara línur að skýrast varðandi hvaða nöfn verða á kjörseðlinum þegar þjóðin kýs sér nýjan forseta þann 25. júní næstkomandi. Skiljanlega hefur verið erfitt að fylgjast með og vita fyrir víst hverjir eru enn í framboði en nú stefnir í að nöfnin á kjörseðlinum verði níu talsins.

Í gær voru ellefu manns eftir í baráttunni en til þess að hljóta vottorð fyrir opinbert framboð ber að skila inn undirskriftalistum til yfirkjörstjórna fyrir miðnætti í dag.

Fréttastofa RÚV greindi frá því í morgun að yfirkjörstjórnir suðvestur- og Suðurkjördæmi hafi gefið út átta vottorð í gær. Þar staðfesti Benedikt Kristján Mewes að hann væri hættur við að skila inn meðmælum  og er þar með úr leik.

Enn óljóst með framboð Elísabetar Jökuls

Samkvæmt heimildum Vísis er líklegt að Elísabet Kristín Jökulsdóttir rithöfundur fái vottorð afhent frá Suðvestur- og Suðurkjördæmi í dag þar sem hún er sögð hafa náð nægilega mörgum meðmælum þar.

Elísabetu vantar aðeins tvö meðmæli í Vesturlandskjördæmi til þess að hljóta vottorðið og það verður því að teljast líklegt að hún verði með í forsetaslagnum.

Níu fá vottorð frá Reykjavíkurkjördæmum í dag

Yfirkjörstjórnir í Reykjavíkurkjördæmi Norður og Suður hittast á opnum fundi kl. 13 – 15 í Ráðhúsinu í dag. 

Búist er við því að þar verði afhend níu vottorð þar sem níu frambjóðendur hafa þegar skilað inn eins mörgum meðmælum og til þarf.

Það eru, í stafrófsröð; 

Andri Snær Magnason, 

Ástþór Magnússon, 

Davíð Oddsson, 

Elísabet Kristín Jökulsdóttir, 

Guðni Th. Jóhannesson, 

Guðrún Margrét Pálsdóttir, 

Halla Tómasdóttir, 

Hildur Þórðardóttir og 

Sturla Jónsson.

Magnús Ingiberg Jónsson hefur skilað inn sínum meðmælum en þar vantar um 700 gild meðmæli til þess að hann hljóti vottorðið. Ekki er búist við því að hann nái að skila þeim inn fyrir fundinn í Ráðhúsinu í dag.

Þá hefur Benedikt Kristján Mewes ekki skilað inn meðmælum fyrir Reykjavíkurkjördæmin tvö. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×