
„Nei“
Stefanía segir þá flokksmenn sem hafa mögulega búið sig undir formannsframboð í erfiðri stöðu. Margir renni hýru auga til Lilju Alfreðsdóttur.
„Já, það eru margir sem renna hýru auga til Lilju, en ég hef heyrt hana segja að hún færi ekki gegn Sigmundi. Sumir gætu þannig verið í erfiðri stöðu og þetta getur valdið streitu innan flokksins. Þeir sem hafa hug á formannsframboði eru líklegir til að halda sig til hlés í fyrstu og gefa ekkert út um það opinberlega nema Sigmundi takist ekki að endurheimta traustið.“
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra segist ekki hafa hugleitt formannsframboð. „Nei,“ segir hún.

Á sama tíma fóru framsóknarmenn á Akureyri fram á „tafarlausa afsögn“ formanns síns úr embætti forsætisráðherra.

Ánægja með Sigurð Inga
„Það kemur á óvart að yfirlýsing um framboð kemur áður en hann er búinn að ræða við flokksmenn,“ segir Stefán Bogi Sveinsson,bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Fljótsdalshéraði,um þá ákvörðun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmanns Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, að halda áfram í stjórnmálum.
„Það hefði verið eðlilegt að taka umræðu um þetta áður, en það er auðvitað lítið að segja við því þegar fólk býður sig fram til trúnaðarstarfa,“ segir Stefán Bogi sem segist telja það góðan kost að Sigurður Ingi Jóhannsson, núverandi forsætisráðherra og varaformaður flokksins, tæki við keflinu.
„Ég bjóst við þessu, að hann myndi koma fram með þetta sjónarmið að vilja halda áfram,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Akureyri. Hann var í hópi þeirra sem vildu að Sigmundur viki sem forsætisráðherra vegna Wintris-málsins.
„Það er í höndum flokksmanna hver framtíðin verður. Það hefur verið boðað til miðstjórnarfundar og þar verða þessi mál rædd.“
Aðspurður hvort hann gæti séð aðra einstaklinga koma til greina í formannssætið vísar Guðmundur í góð störf Sigurðar Inga Jóhannssonar sem forsætisráðherra. „Mér finnst hann hafa staðið sig vel sem forsætisráðherra. Ég sæi hann alveg fyrir mér sem formann flokksins líka. En þetta er fyrst og fremst eitthvað sem við framsóknarfólk þurfum að taka ákvörðun um.“
Fréttastofa ræddi við áhrifafólk í flokknum sem vildi hvorki tjá sig um málið né lýsa yfir afdráttarlausum stuðningi við Sigmund Davíð eða annan frambjóðanda til embættis formanns. Flestir vísuðu í að flokksmenn tækju umræðuna og ákvörðun um framtíð Sigmundar á miðstjórnarfundi og flokksþingi.
Kosningar ekki endilega í haust
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagðist í viðtali við Pál Magnússon á Sprengisandi í gær ekki endilega gera ráð fyrir því að kosningar yrðu í haust. Hann sæi ekki fyrir sér að „stóru málunum“ yrði lokið fyrir september, október. Þá hefði því verið fleygt víðar en í Framsókn að ekki væri hentugt að kjósa í haust.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 23. maí.
Leiðrétting. Stefán Bogi Sveinsson var ranglega sagður forseti bæjarstjórnar í Fljótdalshéraði í upphaflegri frétt Fréttablaðsins. Það er rangt, hann er bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Fljótsdalshéraði og efsti maður á lista.