Erlent

Réttað verður yfir Bill Cosby

Birgir Olgeirsson skrifar
Bill Cosby.
Bill Cosby. Vísir/EPA

Bandarískur dómari hefur ákveðið að rétta skuli í máli gegn Bill Cosby þar sem hann er sakaður um kynferðisbrot gegn fyrrverandi starfsmanni Temple-háskólans. Frá þessu er greint  á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC  en það er Andrea Costand sem sakar hann um að hafa byrlað sér ólyfjan og brotið gegn henni kynferðislega nærri heimili Cosbys í Philadelphia fyrir 12 árum.



Lögregla hóf rannsókn á kæru hennar gegn Cosby á ný í fyrra eftir að fjörutíu konur höfðu stigið fram að lýst svipuðum ásökunum á hendur grínistans. Fram kemur á vef BBC að ekki sé búið að ákveða hvenær verður réttað í málinu.



Cosby hefur sjálfur haldið því fram að hann hafi haft samræði við konurnar með þeirra samþykki.



„Ég sagði við hann: Ég get ekki talað, herra Cosby. Ég varð rosalega hrædd,“  sagði Andrea Costand við lögreglu árið 2005 þegar hún lýsti því sem gerðist eftir að Cosby hafði gefið henni þrjár bláar pillur. Hún sagði pillurnar hafa gert hana ringlaða og máttlausa í fótleggjunum.



BBC segir Cosby halda því fram að Constand hafi aldrei beðið hann um að hætta. Constand segir að hún hafi verið of veikburða vegna lyfjanna sem hann gaf henni til að gera neitt.



Dómarinn ákvað jafnframt í dag að Constand þurfi ekki að gefa skýrslu við réttarhöldin.



Verði hann fundinn sekur á Cosby yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsisvist. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×